Fassbender setur í morðingjagírinn

Síðan að núverandi kynslóð leikjatölva hóf göngu sína hafa fáar leikjaseríur fagnað eins mikilli velgengni og Assassin’s Creed. Nú þegar eru fjórir leikir að baki og sá fimmti er væntanlegur síðar á árinu, en í tilefni þess að sögubogi leikjanna nær hámarki í ár virðist það vera gráupplagt að heyra eitthvað nýtt um kvikmyndaaðlögunina sem hefur verið á sveimi í rúmt ár. Kvikmyndahandleggur Ubisoft sér um helstu vinnslu á myndinni í bili eftir að viðræður við Sony Pictures féllu í valinn, sem gerir það að verkum að liðið fær mun meiri stjórn yfir verkefninu og það vonandi heldur sér nálægt leikjunum. Þetta byrjar þó á réttum fæti þar sem það var tilkynnt í dag að Michael Fassbender mun klæðast hvíta kuflinum; hvaða persóna verður eigandi kuflsins er hins vegar ekki víst.

Að sögn var Fassbender fyrsti kostur Ubisoft, en hann tekur einnig að sér hlutverki meðframleiðanda í gegnum fyrirtækið sitt, DMC Film. Þrátt fyrir að verkefninu vantar enn leikstjóra og handritshöfund er það ekki núverandi vandamál Ubisoft þar sem framleiðslukostnaður verkefnisins er í endurskoðun, enda vill enginn taka sömu (slæmu) fjárhagsáhættuna sem Prince of Persia: Sands of Time var.

Setjum góðu fréttirnar til hliðar og enn stendur eftir bölvunin mikla sem hvílir á tölvuleikjamyndum, en áður höfum við fylgst með gæðaleikurum í öngum sínum í slakri aðlögun. Hvort sem Assassin’s Creed fellur í sömu gryfjuna þá hlýtur að kvikna forvitni í hjörtum þeirra milljóna sem spiluðu leikina og auðvitað vonar maður það besta.