Fær Darra-mynd framhald?

Þó að enn sé langt í frumsýningu,  og kynning á myndinni sé rétt að fara af stað, þá segir Vin Diesel, aðalleikari The Last Witch Hunter, að kvikmyndaverið vilji að hann skrifi strax undir samning um mynd númer 2.  Þá er spurning hver örlög persónu Ólafs Darra Ólafssonar, Belial, verða í þessari mynd og hvort hann yrði þá líka í næstu mynd …

The Last Witch Hunter er ævintýratryllir sem fjallar um persónu Vin Diesel sem er aldurslaus vígamaður sem berst gegn nornum.

vin diesel

Eins og Diesel gerir gjarnan þá notaði hann Facebook síðu sína til að upplýsa um þetta: “ The Last Witch Hunter kemur meira að segja ekki í bíó fyrr en 23. október, en Universal vill að ég skuldbindi mig og taki frá tíma í myndina [framhaldsmynd],“ segir Diesel og biður fólk að tjá sig um málið.

Stjarna Diesel hefur aldrei skinið jafn skært eftir velgengni Fast and Furious myndanna, en síðasta mynd naut gríðarlegra vinsælda. Því er ekki skrýtið að framleiðendur veðji á velgengni The Last Witch Hunter.

olafur darri

Í The Last Witch Hunter leikur Diesel hlutverk Kaulder, aldagamals vígamanns sem drap nornadrottninguna á miðöldum. Hún notaði síðasta andardrátt sinn til að setja á hann bölvun um að lifa að eilífu, þannig að hann gæti aldrei hitt ástvini sína á ný, eftir dauðann.

Núna hefur Kaulder lifað allt til okkar tíma, og er sá síðasti af sinni tegund ( minnir aðeins á Hálendinginn … ).  Nornirnar eru núna að búa sig undir að sleppa svartadauða lausum til að stráfella mannkynið, og því hefur Kaulder svo sannarlega verk að vinna.

Aðrir leikarar eru Rose Leslie (Game of Thrones – Ygritte), Elijah Wood og Michael Caine.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: