Facebook leikari notar ekki Facebook

Jesse Eisenberg sem leikur tölvuséníið og stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg í myndinni The Social Network, notar ekki Facebook sjálfur og kann ekkert á tölvur.

„Ég nota aldrei Facebook,“ sagði Eisenberg við AP fréttastofuna í Róm, þar sem hann er staddur vegna sýningar myndarinnar á kvikmyndahátíðinni þar í borg.
„Ég notaði Facebook í tvær vikur þegar við vorum að æfa fyrir myndina, til að skilja betur hvað það væri sem persóna mín í myndinni hafði búið til.“

The Social Network hefur notið mikilla vinsælda síðan hún var frumsýnd, og verið lofuð af gagnrýnendum. Í myndinni er rakinn aðdragandinn að stofnun Facebook og fjallað um samskipti Zuckerbergs við vini og samstarfsfélaga.

Eisenberg segir að hann hafi farið í tölvutíma hjá ráðgjafa til að undirbúa sig undir myndina, en það hafi ekki gert neitt gagn. „Því meira sem hann reyndi að kenna mér, því minna skildi ég í þessu,“ segir hann. „Ég ákvað því að læra frekar forritunina hljóðfræðilega. Ég einbeitti mér líka sérstaklega að því að kynna mér tilfinningalega hlið persónunnar, sem er mjög sérstök.“

Í myndinni dregur Eisenberg upp mynd af Zuckerberg sem metnaðarfullum, og jafnvel fremur óaðlaðandi, aðalpersónu. Zuckerberg sést í myndinni sem fremur óframfærinn snillingur, sem horfir aldrei til baka á leið sinni að því að búa til risafyrirtækið Facebook, og sker á tengsl við nána vini á leiðinni.