Evans í búning Captain America?

Kvikmyndir.is fylgjast grannt með þróun mála varðandi Captain America ofurhetjumyndina sem er í smíðum, en leit að aðalleikara stendur nú sem hæst. Nú hafa þær fregnir borist yfir hafið að Chris Evans muni leika hetjuna, sem heitir réttu nafni Steve Rogers, en breytist í ofurhetjuna Captain America.

Heimildir herma að leikarinn hafi ekki einungis samþykkt tilboð um að leika hetjuna, heldur hafi samningagerðin gengið svo hratt fyrir sig að hún sé hreinlega á lokastigi.

Marvel, sem framleiðir myndina, vildi ekki tjá sig um þróun mála, og Creative Artists Agency, sem er umboðsaðili leikarans, vildi heldur ekkert segja.

Evans var boðið hlutverkið í síðustu viku samkvæmt heimildum, en þá var óvíst hvort hann gæti samþykkt að taka það að sér.

Það sem var óvissuþáttur í ákvarðanatökunni var sú staðreynd að Evans hefur nú þegar verið að leika ofurhetjuna sem brennur – Johnny Storm, í Fantastic Four myndunum. Spurningin var því sú hvort að hann væri til í að leika aðra ofurhetju. Evans gaf sér nokkurra daga umhugsunarfrest, og ákvað að slá til, og samningaviðræður hafa gengið vel.

Er þetta rétti maðurinn, hvað finnst ykkur?