Erfitt að koma heim úr stríði – Fyrsta stikla úr Thank You For Your Service

Fyrsta stiklan er komin út fyrir nýjustu mynd War Dogs leikarans Miles Teller,  dramamamyndina Thank You for Your Service, en myndin verður frumsýnd í október nk. Myndin er þó ekki á dagskrá íslensku kvikmyndahúsanna, amk. ekki ennþá.

Myndin er fyrsta mynd Jason Hall sem leikstjóra, en hann skrifaði handrit að Óskarsverðlaunamyndinni American Sniper. Hann skrifar jafnframt handrit Thank You For Your Service.

“Það sem mætir þessu fólki þegar það kemur heim úr stríðinu er ekki viðurkenningar og bókasamningar […],” sagði Hall í samtali við bandaríska blaðið USA Today. „Aðlögunin að venjulega lífinu er mjög erfið, og við sjáum þetta ekki, af því að það er enginn að hampa þeim. Um leið og þau fara úr einkennisbúningnum, þá eru þau bara farin í ofurvenjuleg störf. Á vissan hátt er strokað yfir stríðstíma þeirra fljótar en ef þau væru stríðshetjur, af því að fólk í kringum þau gefur þeim engan sérstakan gaum.”

Aðrir helstu leikarar eru Haley Bennett, Beulah Koale, Amy Schumer og  Scott Haze.

Myndin segir frá nokkrum bandarískum hermönnum sem snúa heim úr Íraksstríðinu, og eiga erfitt með að laga sig að daglega lífinu heima fyrir, auk þess sem minningarnar úr stríðinu gera þeim lífið leitt.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: