Enn krafist þess að sniðganga Mulan

Ævintýramyndin Mulan átti upphaflega að vera með fyrstu stórmyndum þessa árs til að prýða kvikmyndahús um allan heim og gefa tóninn fyrir komandi bíóár. Áætlað var að gefa myndina út í mars áður en kórónuveiran skall á víða um heim og eftir sífelldar frestanir ákváðu risarnir hjá Disney að gefa myndina út á streymisveitu sinni.

Um síðustu helgi gátu áhorfendur loksins barið myndina augum (með löglegum hætti) á Disney+ og voru áhorfstölur ekki af verri endanum. Endurgerðin hefur þó lengi verið talin umdeild af nokkrum ástæðum og virðist sem að mótmælin séu nú orðin háværari, og krafan um sniðgöngu á kvikmyndinni sömuleiðis.

Fréttaveitan The Verge greinir meðal annars frá þessu en þar segir að myllumerkið #BoycottMulan hafi vakið mikla athygli í kjölfar útgáfu myndarinnar þann 4. september. Umræðan snýr að leikkonunni Liu Yifei, sem fer með titilhlutverkið í Mulan, og yfirlýsingu sem hún birti á samfélagsmiðlum þar sem hún kveðst styðja kínversk yfirvöld.

Fyrr í sumar voru sett ný öryggislög sem styrkja heimildir Kínaveldis til að brjóta niður ágreining á vettvangi. Lögin hafa verið harðlega gagnrýnd af Sameinuðu þjóðunum og réttindahópum víða.

Leikkonan tjáði sig meðal annars á Twitter og sagðist skilja þessar umdeildu aðgerðir. „Ég styð lögregluna í Hong Kong. Þið megið ráðast á mig að vild,“ ritaði Yifei.

Áhyggjuefni ef myndin slær ekki í gegn

Forstjóri Disney kvikmyndaversins, Alan Horn, svaraði þessari gagnrýni í viðtali við The Hollywood Reporter og sagði að ummæli Liu endurspegluðu ekki skoðanir Disney á neinn veg. Horn leggur áherslu á mikilvægi málfrelsis og segir að fyrirtækið hafi reynt að halda ákveðinni fjarlægð frá þessum deilum.

Horn tók að vísu fram að velgengni Mulan í Kína skipti kvikmyndaverið gríðarlega miklu máli. „Við stöndum frammi fyrir stærra vandamáli ef Mulan slær ekki í gegn í Kína,“ mælti Horn.

Þá hefur Disney einnig þurft að kljást við fjölda mótmæla sökum þess að Mulan var að hluta til tekin upp í Xinjiang sjálfstjórnarhéraðinu í vesturhluta Kína. Meðferð stjórnvalda á Uig­h­ur múslimum og öðrum minnihlutahópum þar hefur ítrekað verið gagnrýnd. Yfirvöld hafa margsinnis verið sökuð um að hylma yfir dráp á Uighur-mönn­um.

Sér­fræðing­ar Sam­einuðu þjóðanna og mann­rétt­inda­sam­tök segja kín­versk yf­ir­völd vera með um eina millj­ón Uighur-múslima í haldi í sér­stök­um kyrr­setn­inga­búðum en stjórn­völd full­yrða hins veg­ar að um sé að ræða sér­stak­ar starfsþjálf­un­ar­búðir sem ætlaðar séu til að vinna gegn öfga­sinn­um.

Burtséð frá allri pólitík hefur Mulan hlotið ágætis dóma gagnrýnenda og vakti góða lukku meðal áskriftenda Disney+. Myndin á þó enn langt í land með að koma út í hagnaði en heildarkostnaður – með markaðssetningu og öllu – nemur um 300 milljónum Bandaríkjadala, í það minnsta.

Áætlað er að frumsýna myndina í Kína þann 11. september.

Stikk: