Skipulagsstigið gengur hingað til ekki svo vel hjá aðstandendum þriðju X-Men myndarinnar. Eftir að Bryan Singer fór frá henni til að glíma við Ofurmennið hafa borist sífelldar fréttir um seinkanir eða önnur vandamál. Svo fréttist að Halle Berry hafi ákveðið að hætta við og sleppa því að taka þátt (frekar brengluð ákvörðun að yfirgefa þessa mynd en ekki Catwoman). Nú hefur verið staðfest að James Marsden (Cyclops) muni heldur ekki snúa aftur, enda var hann ráðinn í Superman endurgerðina. Þau nöfn sem eru 100% staðfest eru Alan Cumming, Anna Paquin, Aaron Stanford og Rebecca Romijin. Hugh Jackman segist aðeins ætla að endurtaka Wolverine rulluna ef handritið er eitthvað þess virði.
Vonað er að Patrick Stewart, Ian McKellen og Famke Janssen komi aftur, en nánari fréttir um það berast væntanlega síðar. En miðað við hversu stutt framleiðsla myndarinnar er komin (og hún er sögð eiga að vera komin í bíó á næsta ári) hefur árangurinn ekki verið jákvæður hingað til. Er möguleiki að þessi sería fari í vaskinn nú þegar Singer er farinn?? Það getur allt gerst. Því miður.

