Endurbætt útgáfa Titanic sýnd í næstu viku

Bíósumarið hefur verið vægast sagt undarlegt þetta árið vegna faraldursins. Í kvikmyndahúsum og þá ekki síst hérlendis hefur verið boðið upp á sýningar á eldri kvikmyndum, margar hverjar klassískar, og munu uppfyllingar af þessu tagi halda áfram næstu vikurnar.

Þann 25. júní gefst fólki tækifæri að sjá stórmyndina Titanic á hvíta tjaldinu á ný. Um er aðeins eina sýningu að ræða, veltandi þó á áhuga og mætingu, og verður myndin sýnd kl. 20:00 í Smárabíói*, í MAX-sal og án texta.
Myndin er frá árinu 1997 og hefur lengi þótt njóta sín best á stórum skjá, eins og flestar kvikmyndir frá James Cameron, ef út í það er farið.

Útgáfan sem sýnd verður á komandi sýningu verður endurbætta útgáfan frá árinu 2012. Þar fáum við ögn lengri útgáfu sem inniheldur fáeinar lagfæringar frá Cameron. Ein umtalaðasta breytingin snýr að kvöldhimninum þegar hið örlagaríka kvöld skipsins átti sér stað.

Cameron ákvað að vaða í þessar breytingu eftir að Stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson sendi honum tölvupóst þar sem hann sagði að himinninn og stjörnurnar væru kolvitlaust útfærðar, að leikstjórinn hafi átt að vita betur. Þá bað Cameron um stjarnfræðilega réttar upplýsingar fyrir aðfaranótt 15. apríl árið 1912 og uppfærði lokaútkomuna í kvikmyndinni.
Þetta á sérstaklega við um eitt skot þar sem Rose (Kate Winslet) horfir upp til himna sem þarna og sér þá þetta…

… en í raun og veru hefði himinninn frekar átt að líta svona út.

Cameron er þekktur fyrir það að vera fullkomnunarsinni og stóðst ekki mátið að lagfæra himinninn til að vera eins nálægt raunveruleikanum og hægt er.

Titanic var í áraraðir tekjuhæsta kvikmynd allra tíma, áður en Cameron sló eigið met með Avatar um áratug síðar og hélt því í tíu ár þangað til Avengers: Endgame hreppti þann heður. Titanic vann 11 Óskarsverðlaun á sínum tíma (besta mynd, leikstjórn, tæknibrellur, hljóð, hljóðvinnsla, myndataka, sviðshönnun, klipping, frumsamda tónlist, frumsamda lag, búningar).

Hægt er að nálgast miða á sýninguna hér.

*Athugið að myndin verður einnig sýnd í Borgarbíói á Akureyri sama kvöld.

Hér að neðan má finna Bíótalsþátt um Titanic sem gefinn var út á Kvikmyndir.is árið 2012.