Enchanted 2 á leiðinni

Árið 2007 naut Disney ævintýramyndin Enchanted þónokkurra vinsælda, og þénaði 340 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim, og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta lag í bíómynd.

enchanged

Fljótlega var byrjað að huga að framhaldi myndarinnar, en síðan fór verkefnið í frost og hefur legið þar þar til núna, að verkefnið er komið aftur í gang samkvæmt kvikmyndavefnum Collider. 

Og ekki nóg með það heldur er komið vinnuheiti á myndina, Disenchanted, og leikstjóri sömuleiðis; Anne Fletcher. Auk þess eru handritaskrif á lokastigi.

Óvíst er hverjir af leikurunum mæta aftur, en Amy Adams lék aðalhlutverkið eftirminnilega í fyrri myndinni, en einnig þau Patrick Dempsey, James Marsden, Idina Menzel, Susan Sarandon og Julie Andrews.

Eins og Movieweb bendir á þá hefur Amy Adams oftar en einu sinni lýst yfir áhuga á framhaldi, enda átti myndin stóran þátt í að auka veg hennar og virðingu í Hollywood.

Nú er bara að vona að myndin fari alla leið, en endi ekki aftur í biðstöðu.