Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar kvikmyndaleikstjóra mun verða sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto sem hefst þann 8. september nk. Myndin verður á meðal keppenda um Discovery verðlaunin á hátíðinni. Rúnar segist í samtali við Fréttablaðið í dag vera mjög ánægður með að komast að þarna: „Það er mjög gott að komast þarna inn því Toronto er risamarkaður sem Hollywood nýtir sér til að koma sínum myndum á framfæri,“ segir Rúnar í samtali við Fréttablaðið.
Eldfjall var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi í vor, og hlaut þar góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.
Kvikmyndahátíðin í Toronto er sú stærsta og virtasta í Norður-Ameríku og fer fram dagana 8.-18. september. Auk þess keppir Eldfjall á kvikmyndahátíðinni í Chicago sem fram fer í október. Rúnar er nú staddur á kvikmyndahátíðinni í Óðinsvéum þar sem hann heldur masterklassa í frásagnartækni í vikunni.
„Zik Zak, sem framleiðir myndina, gleðst mjög yfir þessum fyrstu móttökum vestanhafs. Þær fylgja í kjölfarið á sérlega jákvæðum undirtektum í Evrópu eftir frumsýningu myndarinnar í Cannes í vor þar sem myndin keppti um Camera d’Or verðlaunin. Síðan þá hefur myndin verið sýnd á kvikmyndahátíðunum í Haugasundi, Karlovy Vary, München og í Transylvaníu, þar sem Rúnar vann verðlaun fyrir bestu leikstjórn, svo fátt eitt sé nefnt. Á næstu vikum og mánuðum verður myndin sýnd á yfir tuttugu kvikmyndahátíðum og hefur starfsfólk Zik Zak varla við að svara fyrirspurnum héðan og þaðan úr heiminum,“ segir í fréttatilkynningu frá ZikZak.
Kvikmyndin Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu, sem þarf að takast á við nýtt hlutverk í lífinu þegar eiginkona hans veikist. Þetta er þroskasaga manns sem þarf að takast á við afleiðingar fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð. Með aðalhlutverk fara Theodór Júlíuson og Margrét Helga Jóhannsdóttir
Rúnar Rúnarsson útskrifaðist frá Konunglega danska kvikmyndaskólanum árið 2009. Stuttmyndir hans Smáfuglar, Anna og Síðasti bærinn hafa farið sigurför um heiminn. Anna keppti í flokki stuttmynda í Directors Fortnight í Cannes árið 2009, Smáfuglar keppti um Gullpálmann í Cannes í flokki stuttmynda árið 2008 og Síðasti bærinn var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki stuttmynda árið 2006. „Saman unnu þessar myndir tæplega 100 alþjóðleg kvikmyndaverðlaun sem er einsdæmi.“