Tom Hardy er án efa einn af þekktustu leikurum okkar tíma. Hann hefur leikið í mörgum af frægustu kvikmyndum 21. aldarinnar og er þekktur fyrir fjölbreytta frammistöðu. Leiðin að þessum gríðarlega farsæla ferli var þó langt frá því að vera dans á rósum.
Hardy varð ungur háður áfengi og öðrum fíkniefnum og lenti í ýmsum erfiðleikum sökum þess. Hann var rekinn úr menntaskóla og var eitt sinn handtekinn fyrir að keyra um á stolnum bíl og vera með byssu á sér.
Árið 1998 vann hann fyrirsætukeppni í sjónvarpi og fékk atvinnusamning í kjölfarið. Hlutirnir virtust nú ganga vel hjá Hardy og áhugi hans á leiklist fór vaxandi. Hann byrjaði í leiklistarnámi í Drama Centre í London en því miður var hann rekinn þaðan rétt eins og úr menntaskóla. Samt sem áður hreppti hann lítil hlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni Band of Brothers og í kvikmyndinni Black Hawk Down árið 2001.
Hardy barðist enn við fíknina og fór loks í meðferð árið 2003. Þá fór ferillinn loks að blómstra. Hann byrjaði að fá hlutverk í leikritum og allskonar breskum sjónvarpsþáttum, þar á meðal Bill Sikes í Oliver Twist (2007) og Heathcliff í Wuthering Heights (2009). Hann var svo tilnefndur til BAFTA verðlauna fyrir hlutverkið sitt í sjónvarpsmyndinni Stuart: A Life Backwards (2007) árið 2008.
Handsome Bob fyrsta stóra
Tom Hardy lék sitt fyrsta stóra kvikmyndahlutverk í myndinni RocknRolla árið 2008 þar sem hann lék Handsome Bob. Sama ár lék hann sitt fyrsta aðalhlutverk í myndinni Bronson sem er ævisaga alræmdasta fanga Bretlands, Charles Bronson.
Hardy fékk mikið lof fyrir túlkun sína á Bronson sem leiddi til þess að hann varð eftirsóttur leikari í Hollywood. Hann fékk stærri hlutverk með hverju árinu sem leið og lék í stórmyndum eins og Inception (2010), Warrior (2011) og The Dark Knight Rises (2012). Þar lék hann myndasöguillmennið Bane eins og frægt er orðið. Hann lék svo aðalhlutverkið í myndinni Locke (2013). Hann er eina persónan í myndinni og ekur bíl allan tímann. Það hlutverk sýndi að Hardy getur tekist á við erfið verkefni og lætur ekkert stoppa sig.
Árið 2015 lék hann bæði í Mad Max: Fury Road og The Revenant og var hann tilnefndur til Óskarsverðlaunanna fyrir hlutverkið í þeirri síðarnefndu árið 2016.
Árið 2017 lék hann í kvikmyndinni Dunkirk og var það í þriðja sinn sem hann vann með leikstjóranum Christopher Nolan. Ári seinna lék hann annað frægt illmenni úr myndasögum, titilhlutverkið í myndinni Venom (2018).
Snýr aftur sem Venom
Hann snýr nú aftur sem Venom í framhaldsmyndinn Venom: Let There Be Carnage (2021) sem kemur í bíó á Íslandi í dag og er sýnd í kvikmyndahúsum um allan heim.
Tom Hardy hefur sýnt að hann getur tekist á við allskonar verkefni, hvort sem það eru hlutverk í stórmyndum eða listabíói, aðalhlutverk eða aukahlutverk. Hann leggur sig alltaf allan fram.