Leikarinn Sharlto Copley, sem fór með eitt aðalhlutverkanna í spennumyndinni The A-Team, sagði í nýlegu viðtali að hann vissi ekki til þess að framhald væri í vinnslu. The A-Team kom út á þessu ári og skartaði meðal annars þeim Liam Neeson og Bradley Cooper, en myndin var byggð á samnefndum þáttum frá níunda áratugnum.
„Sem aðdáandi þáttanna vildi ég sjá okkur gera það sem þeir gerðu í þáttunum. Þú veist, taka að okkur störf og hjálpa fólki. Við gátum ekki gert það í fyrstu myndinni því við þurftum að fara gegnum uppruna liðsins, en ég vonaðist til að sjá það í framhaldinu.“ sagði Copley í nýlegu viðtali.
Leikstjóri myndarinnar, Joe Carnahan, var ekki sáttur með auglýsingarherferðina. Myndin, sem kostaði 110 milljónir bandaríkjadala í framleiðslu, rakaði aðeins inn 70 milljónum vestanhafs. „Auglýsingaherferðinni var beint að vitlausum hóp. Ég get ekki sagt þér hversu margar konur hafa komið upp að mér og sagst hafa verið dregnar á myndina en elskað hana svo. Þegar fólk segir svona veistu að eitthvað klikkaði.“. En að lokum bætti Carnahan við að ef myndin selst vel á DVD og Blu-Ray eru líkur á að 20th Century Fox gefi grænt ljós á framhald.
– Bjarki Dagur