Eins og Avengers nema litríkari

Ben Schwartz leikur Sonic the Hedgehog í Sonic the Hedgehog 3 sem kemur í bíó á annan í Jólum, 26. desember.

Í nýju viðtali talar leikarinn um ýmislegt er tengist persónunni, vinum hans og óvinum.

Hvernig hefur Sonic breyst á milli mynda, frá nr. 2 – 3?

“Sko, bökkum aðeins. Í fyrstu kvikmyndinni var Sonic ungur gaur sem þurfti að fara úr sínu kunnuglega umhverfi og átti engan að, þannig að hann leitaði í örvæntingu að fjölskyldu. Hann fann hana í Tom, sem James Marsden leikur, og Maddie, í túlkun Tika Sumpter.

Önnur myndin fjallaði um leit hans að vinum og þá fann hann í Tails, sem Colleen O’Shaughnessey leikur, og í lokin fann hann Knuckles, sem Idris Elba túlkar.

En nú í þriðju myndinni lærir hann að verða leiðtogi, en án þess að beita yfirgangi eða halda að hann geti gert allt. Myndin fjallar um það hvernig Sonic lærir að dreifa álaginu og reiða sig á fólk þegar hann þarfnast aðstoðar, sem er stórt skref fyrir börn að læra. Og einnig fyrir fullorðna! Öll þessi stig í öllum þessum kvikmyndum, held ég, getur fólk tengt við á ólíkum tímum í lífi sínu.“

Í Sonic The Hedgehog 3 þá er Sonic gengið fengið til að bjarga heiminum frá stórhættulegri nýrri ógn. Hver eru þau og afhverju eru þau svona gott teymi?

„Sonic teymið samanstendur af Sonic, Tails og Knuckles. Sonic kemur með hraðann og rétta viðhorfið, Tails kemur með gáfurnar og flugið og Knuckles kemur með vöðvana. Þau eru bestu vinir og styðja hvern annan, sem er mjög mikilvægt. Og þau nota sérhæfileika sína í sameiningu til að slást við öfluga óvini. Þetta er ekki ósvipað og the Avengers í Marvel, nema þau eru litríkari.“

Sonic the Hedgehog 3 (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.5

Sonic, Tails, Knuckles og Amy sameinast gegn Shadow, Robotnik, Scratch, Grounder og Rouge, sem vilja ná valdi á hinum kröftugu óreiðugimsteinum. Andstæðingarnir keppast við að tryggja sér yfirráð yfir helgigripunum og örlög alls heimsins eru í óvissu á meðan....

Hvaða persónur úr Avengers eru hverjar í Sonic teyminu?

„Knuckles væri Hulk. Tails væri Iron Man, því hann hefur þekkingu og er uppfinningasamur eins og Tony Stark. Og af því að Sonic er ungur með gott viðhorf, þá er hann Spider-Man.“

Hver er þessi hræðilega ógn sem Sonic gengið stendur frammi fyrir?

„Í myndunum erum við alltaf að skapa stærri og stærri ógnir. Núna eru tæknibrellurnar ótrúlegar, slagsmálasenurnar magnaðar, sagan er yfirgripsmikil og myndin gerist úti um allan heim. Núna er Sonic teymið að berjast við stærstu lifandi ógn allra tíma: Shadow the Hedgehog, sem Keanu Reeves talar fyrir, en hann er algjör hetja í mínum augum. Við erum einnig með tvo Dr. Robotnik, en Jim Carrey leikur bæði Ivo Robotnik og afa hans Gerald. Er hægt að hafa einhvern stærri en Jim Carrey í kvikmynd spyr ég? Jú að hafa tvo í einni mynd! Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Og núna er ógnin meiri en nokkru sinni fyrr. Shadow ógnar öllum. Hann er kraftmeiri en nokkur persóna sem Sonic hefur áður staðið frammi fyrir.“

Afhverju ertu svona mikill aðdáandi Keanu Reeves? Hvaðan kemur það?

„Þegar ég var strákur var Bill & Ted’s Excellent Adventure frumsýnd, og hún var mjög stór fyrir mér. Og svo var Parenthood frumsýnd, sem ég elskaði. Svo kom Speed. Þá fengum við Point Break. Þannig að ég er Keanu aðdáandi af gamla skólanum. Og ég hef séð allar John Wick kvikmyndirnar. Hann er meiriháttar. Rödd hans hefur svo mikið og gott hljómfall og hann er svo svalur.

Yfirleitt fæ ég ekki stjörnuglýju – venjulega hitti ég manneskju og sé að hún er bara eins og hver annar og ekki einhver persóna af skjánum, og þá kemst ég í jafnvægi – en ef ég þekkti ekki Keanu, þá myndi ég aldrei þora að tala við hann. Ég yrði of stressaður. Það er það sama með Jim Carrey. Ég meina, hefur Carrey virkilega þörf fyrir að enn einn nördinn komi til að segja honum hvað hann er æðislegur, ha ?“