Sambíóin heimsfrumsýna kvikmyndina Edge of Tomorrow með Tom Cruise og Emily Blunt í aðalhlutverkum á miðvikudaginn næstkomandi, en Ísland fær að taka myndina til sýningar heilum 9 dögum á undan Bandaríkjunum.
Gríðarlega öflugar og hættulegar geimverur sem eira engu hafa gert árás á jörðina og þrátt fyrir öfluga mótspyrnu er ljóst að maðurinn býr ekki yfir þeirri tækni sem þarf til að verjast þeim til lengdar. Tom Cruise leikur hermanninn Bill Cage sem sendur er í eina orrustuna með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Hann hefur enga reynslu af því að berjast við geimverurnar og er drepinn aðeins nokkrum mínútum eftir að hann mætir á vígvöllinn. Honum til mikillar furðu rankar hann um leið við sér degi áður en hann er kallaður til orrustunnar og þarf að endurtaka leikinn.
Þessi endurtekna reynsla Bills af þessum sama degi og þessum sama bardaga gerir það smám saman að verkum að hann fer að læra inn á hvernig hann fer að því að lifa af og ekki nóg með það heldur gefur þetta honum tækifæri til að átta sig á veikleikum geimveranna og um leið uppgötva hvernig hægt sé að sigra þær í eitt skipti fyrir öll.
Myndin er byggð á þekktri teiknimyndasögu eftir Japanann Hiroshi Sakurazaka, All You Need is Kill, sem kom út árið 2004 og margir telja einhverja þá bestu í sínum flokki enda var slegist um kvikmyndaréttinn á henni á sínum tíma.
Myndinni er leikstýrt af Doug Liman sem leikstýrði m.a. The Bourne Identity. Aðalhandritshöfundur myndarinnar er Christopher McQuarrie, en hann á heiðurinn af handriti myndanna Public Access, The Usual Suspects, The Way of the Gun, Valkyrie og Jack Reacher.