Edge of Tomorrow 2 verður forsaga og framhald

Tom Cruise lætur ekki deigan síga og dælir út hverri hasar-framhaldsmyndinni á fætur annarri. Nú þegar hefur hann framleitt Mission Impossible myndir á færibandi, auk þess sem Jack Reacher 2 er í bíó þessa dagana. Næst á dagskrá er það framhald á vísindatryllinum Edge of Tomorrow, sem var þrælgóð skemmtun. Framhald ætti því að vera fagnaðarefni fyrir flesta aðdáendur leikarans.

tom-cruise-edge

Samkvæmt MovieWeb er spurningin nú hvort að framhaldsmyndin verði framhald síðustu myndar, eða forsaga? Samkvæmt leikstjóranum Doug Liman þá verður hún hvorutveggja. Almennt séð gæti það verið flókin tilhugsun, en þar sem Edge of Tomorrow fjallaði um tímaferðalög, þá má segja að þetta sé nokkuð rökrétt.

Liman ræddi nýlega við Collider vefsíðuna um nýjar sjónvarpsseríu sína Invisible, og talið barst meðal annars að Edge of Tomorrow 2:  „Þetta er eina framhaldsmyndin sem ég er að spá í að gera, og það er aðallega af því að þetta er svo mögnuð saga, og mun betri en í upprunalegu myndinni, sem ég var mjög hrifinn af, auk þess sem þetta er framhaldsmynd sem er forsaga.“

Hvernig á maður að skilja þessi orð. Mun þetta þýða að við sjáum meira af upphaflegu geimveruinnrásinni, eða munum við fá að sjá meira af atburðunum sem gerðust daginn sem allt gerðist í fyrstu myndinni, en aðrir hlutir muni gerast innan dagsins? Líklega verðum við bara að bíða og sjá, en það er amk. ljóst að margir bíða spenntir enda var fyrstu myndinni mjög vel tekið á sínum tíma.

Frumsýningardagur Edge of Tomorrow 2 hefur ekki enn verið ákveðinn, en handritið virðast amk. vera tilbúið, sbr. orð Liman hér að ofan. Handritshöfundar eru þeir sömu og skrifuðu Race, þau Joe Shrapnel og Anna Waterhouse.

Aðalleikarar fyrri myndarinnar, þau Emily Blunt og Tom Cruise mæta bæði til leiks í Edge of Tomorrow 2, en næstu verkefni þeirra eru Mission Impossible 6, hjá Cruise, og Mary Poppins hjá Blunt.