Kvikmyndaverið Paramount hefur nú hafið undirbúning á nýrri vísindaskáldskaparmynd sem ber nafnið Collider og byggir á hugmynd eftir Edgar Wright (Hot Fuzz, Scott Pilgrim). Einn framleiðanda verkefnisins er J.J. Abrams, og þarf því ekki að koma á óvart að lítið sem ekkert meira er vitað um eðli myndarinnar. Hann er mikið fyrir að halda leyndarmálum sínum leyndum, hann Abrams. Við vissum varla um hvað Super 8 var fyrr en hún kom í bíó, og þó tökum sé lokið á næstu Star Trek mynd vitum við ekki einu sinni hvað hún mun heita, hvað þá neitt um söguþráðinn.
Þeir félagar hafa ráðið handritshöfundinn Mark Protosevich til skriftanna, hann hefur m.a. áður pennað myndirnar Thor, I Am Legend og Poseidon, auk handrits að Jurassic Park IV, sem gefur í það minnsta í skyn að hann eigi velheima í vísindaskáldskapargeiranum.
Svo virðist að Wright ætli að taka að sér leikstjórn verkefnisins, en sennilega er þá nokkuð í það að hann komist í það. Tökur á The Worlds End, lokakaflanum ‘Blood and Ice Cream’ þríleiknum svokallaða (sem samanstendur af Shaun of the Dead og Hot Fuzz) hefjast í haust. Þar næst tekur (líklega) við ofurhetjumyndin Ant-Man, sem Wright hefur verið að undirbúa fyrir Marvel með hléum síðan 2006. Abrams á sjálfur eftir að velja sér leikstjórnarverkefni á eftir Star Trek, en ekki þykir líklegt að hann muni leikstýra Collider.
Við vitum kannski ekki mikið, en Collider ætti að fara ofarlega á lista eftirvæntingarinnar bara upp á það að byggja á upprunalegri hugmynd eftir Edgar Wright sem var það góð að J.J. Abrams ákvað að vera með í framleiðslu hennar. Ég bíð allavega spenntur eftir að heyra meira.