DVD RÝNI: Inglourious Basterds

Inglourious Basterds er ábyggilega umtalaðasta bíómyndin hér á vefnum síðan The Dark Knight kom út, og af hverju ekki?? Hún er brilliant… Svo djörf, svo vel skrifuð og glæsilega uppbyggð veisla af flugbeittum samtölum, geðveiki og ófyrirsjáanlegum uppákomum. Þessi mynd er það góð að mínu mati að ég myndi glaðlega segja ykkur að kaupa DVD (eða Blu-Ray) diskinn bara útaf henni.

Aukaefni er því miður frekar aumt en það gildir um nánast flestar myndir Tarantinos. Hann yfirleitt gefur út myndirnar sínar í standard pökkum og svo einhverjum 10 árum seinna koma safngripirnir. Ég er enn að bíða eftir Kill Bill pakkanum þar sem báðir hlutarnir eru klipptir saman í eina heild. Svo er löngu búið að lofa okkur Grindhouse í heild sinni. Hér er mynd af þeim pakka.

Allavega, hér er smá umfjöllun á Basterds í hnotskurn:


MYNDIN:
(9/10)

„Basterds er gríðarlega vel heppnuð retró-stríðsmynd með smá kryddi af
spagettívestra. Myndin tekur ýmsar áhættur og svínvirkar allan tímann
með teygðri en skemmtilega óhefðbundinni frásögn sem bæði byrjar og
endar með þvílíkum stæl. Ég gat aldrei séð fyrir mér hvert myndin væri að stefna eða hvernig hún
ætti eftir að spilast út til enda, og slík tilfinning er ávallt
hressandi í heimi þar sem kunnuglegar formúlur finnast nánast á hverju
strái.“

„Saga Basterds er skipt
niður í fimm númeraða kafla, alveg eins og Kill Bill-myndirnar. Tveir kaflar stóðu samt hvað mest upp úr,
sá fyrsti og sá síðasti. Þessar fyrstu 20 mínútur bera stærstu einkenni
spagettívestrana og jafnvel væri hægt að taka þennan staka kafla og
nota hann sem litla, magnþrungna stuttmynd. Svo eru síðustu 45
mínúturnar líka alveg magnaðar, og ég get ómögulega sagt annað en að
þetta sé einhver besti lokasprettur sem ég hef séð í bíó í ár, og
e.t.v. undanfarin ár. Ég var næstum því farinn að gráta af gleði yfir
því sem gerðist alveg í lokin. Hvílík snilld! Myndin tekur sveiflur inn
á milli út lengdina en tapaði aldrei áhuga mínum.“

„Inglourious Basterds er akkúrat rétta blandan af gamaldags (og afar
stílískri) kvikmyndagerð og fersku hráefni. Sagan tekur sig kannski
ekki alvarlega en myndin er alls ekki laus við kröftug móment. Hún slær
líka á alla réttu strengi hvað spennuuppbyggingu varðar, en þá mjög
óhefðbundna, og oftast með samræðum.“

….

Síðan bara upp á gamanið vil ég endilega vitna í skemmtilega dóma eftir tvo notendur síðunnar: Sölva Sigurð og Þórð Davíð:


„Allt sem þú veist um sögu Hitlers, skalt þú gleyma, því að þessi saga
kemur henni ekkert við sögu þótt Hitler sé í henni. Allt sem gerist!
Myndin virkar líka betur þannig! Mér finnst mjög erfitt að gagnrýna
þessa mynd, því ég er ennþá í sjokki útaf þessari mynd. Hún er allt,
fyndin, blóðug, vel leikinn, flottar klippingar, ALLT!“


„Munið þið eftir þeirri tilfinningu þegar þið voruð yngri hvað það var
alltaf spennandi að fá 100 kallinn á laugardaginn, bara til þess eins
að fara með hann í sjoppuna til þess að fá þennan littla nammipoka? Ég
veit að þetta er frekar skríngileg lýsing til að byrja gagnrýni á, en
þetta er einmitt sú tilfinning sem ég fæ í hvert skipti sem að ný mynd
frá meistaranum Quentin Tarantino kemur út… Inglourious Basterds er enn eitt meistaraverkið.“


AUKAEFNI:

– EXTENDED/ALTERNATE SCENES:

Voða gagnslausar framlengingar, og aðeins þeir sem hafa séð myndina oftar en þrisvar ættu að taka eftir mun. Fínt að QT hafði vit fyrir því að skera þessa búta.

– NATION’S PRIDE:

Klárlega þess virði að tékka á ef þú fílar „húmorinn“ á bakvið þessa gervi áróðursmynd. Myndin er samt ekki nema 7 mínútur og er viljandi sundurlaus, enda á maður að trúa því að þetta sé mynd í fullri lengd þegar maður horfir á Basterds. Vel gert hjá Eli Roth, segi ég. Ábyggilega besta myndin hans.

– TRAILERS

Ekkert nýtt.


NIÐURSTAÐA:

Ég gæti ekki ímyndað mér diskasafn án þessarar myndar. Ég vildi samt óska að við myndum einn daginn fá risaútgáfu af henni, með heimildarmyndum og mögulega eitt stykki „commentary.“ En það er einungis óskhyggja í mér, og ef ég hefði fengið þennan disk í jólagjöf þá væri ég ekkert nema drullusáttur því ég mun horfa á myndina aftur og aftur á komandi mánuðum. DVD diskurinn kemur í búðir á morgun. Blu-Ray eintökin koma aðeins seinna. Ekki alveg vitað hvenær.

Hver er annars uppáhalds línan þín úr myndinni? Mín er: „Well, then I must be King Kong!“ Nett fyndið hvað sá djókur fór framhjá mörgum.