Djúpið ekki tilnefnt – bara næst segir Baltasar

Djúpið, mynd Baltasars Kormáks, var ekki tilnefnt til Óskarsverðlauna nú þegar tilnefningar voru tilkynntar fyrr í dag.

Í samtali við mbl.is segir Baltasar að það sé lítið við þessu að gera, og að þetta verði bara næst eins og hann orðar það í viðtalinu, en Baltasar fylgdist ekki með þegar greint var frá tilnefningunum, en hann fékk að vita skömmu áður að Djúpið væri ekki á meðal tilnefndra mynda.

Djúpið komst á níu mynda stuttlista mynda sem gátu hlotið tilnefningu.

„Þetta er bara eins og þetta er; það er ekkert við þessu að gera,“ sagði Baltasar Kormákur um tilnefningarnar til Óskarsverðlaunanna í ár í samtali við mbl.is

„Maður stjórnar þessu ekki,“ segir Baltasar ennfremur í viðtalinu, en hann er staddur í Bandaríkjunum.

Myndirnar fimm sem eru tilnefndar sem besta erlenda kvikmyndin í ár eru: Amour frá Frakklandi og Austurríki, Kon-Tiki frá Noregi, No frá Síle, A Royal Affair frá Danmörku og War Witch frá Kanada.

Baltasar segir í viðtalinu að þetta hafi verið sterkt ár og þrjár skandinavískar myndir hafi verið tilnefndar í þetta sinn.