Disney þróar Time Zones

Marc Guggenheim, einn fjögurra handritshöfunda Green Lantern myndarinnar, er að skrifa handrit að Scifi – ævintýri sem ber nafnið Time Zones. Stutta útgáfan af konseptinu er að einhver ófyrirséður atburður hafi rifið gat á tíma og rúm, sem leiði til þess að til verði „tímasvæði“. Þannig gæti verið árið 1911 í Keflavík, árið 2050 í Reykjavík, en árið 1200 á Akureyri. Sennilegra er þó að aðrir staðir verði fyrir valinu í handritsgerðinni – og kannski að skiptingin nái yfir stærri svæði. Greint er frá því að sagan muni fjalla um mann sem uppgötvar að fyrst hann geti ferðast um tíma með því að ferðast í rúmi, geti hann bjargað lífi konunnar sinnar, og þarf hjálp frá dóttur sinni til verksins.

Guggenheim á fyrst og fremst sjónvarpsvinnu í þáttum eins og Law & Order að baki, auk þess að hafa skrifað myndasögur fyrir bæði Marvel og DC. fyrir utan hina umdeilanlegu Green Lantern. Hann er þó búinn að henda saman handriti að Green Lantern 2, og einnig gera drög að bíómynd um The Flash. Óvíst er hvort báðar myndir muni líta dagsins ljós, og þá hvort handrit Guggenheims verði notuð.

En hljómar Time Zones eins og mynd sem fólk myndi nenna að sjá?