Dinklage er Bond leikari í nýrri ævisögu

Game of Thrones stjarnan Peter Dinklage leikur á móti Fifty Shades of Grey leikaranum Jamie Dornan í nýrri ævisögulegri kvikmynd frá HBO sjónvarpsstöðinni, og nú mega James Bond aðdáendur sperra augu og eyru!

Dinklage, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Tyrion Lannister í Krúnuleikunum, eða Game of Thrones, leikur Hervé Villechaize, en hann sló í gegn í hlutverki leigumorðingjans Nick Nack í Bond kvikmyndinni The Man with the Golden Gun, auk þess sem hann lék aðstoðarmann Mr. Roarke, Tattoo, í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Fantasy Island frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

My Dinner with Hervé, fjallar um blaðamanninn Danny Tate, sem Dornan leikur, sem fær það verkefni að taka viðtal við „frægasta dverg í heimi.“

Þeim verður vel til vina, og skella sér saman út á djammið, og uppákoman mun breyta lífi þeirra til frambúðar.

Dinklage sagði frá því árið 2012 að hann hefði þá þegar eytt mörgum árum í handritaskrif myndarinnar ásamt blaðamanninum Sacha Gervasi, sem tók viðtal við Hervé sjálfan nokkrum dögum fyrir dauða hans árið 1993.

Auk Dinklage og Dornan leika í myndinni þau Oona Chaplin, sem lék Talisa Maegyr í Game of Thrones, Mamma Mia: Here We Go Again leikarinn Andy Garcia, þar sem hann söng ABBA lagið Fernando í hlutverki Fernando, og The Crown leikkonan Dame Harriet Mary Walter, en hún lék eiginkonu Winston Churchill, Clementine, í þáttunum.

My Dinner with Hervé verður frumsýnd á HBO í Bandaríkjunum 20. október. Hver veit nema hún rati einnig til Íslands, en Stöð 2 er með samning við HBO hér á landi.

Smelltu hér til að sjá stutta kitlu úr myndinni.