Vin Diesel ( The Fast and the Furious ), leikarinn geðþekki, er orðinn einn af tekjuhæstu leikurum Hollywood. Eftir gríðarlega velgengni Fast and the Furious, getur hann nánast ráðið eigin launum. Hann hefur nú skrifað undir samning um að leika í framhaldinu af Pitch Black fyrir um 11 milljónir dollara. Myndin, sem í augnablikinu ber heitið The Chronicles of Riddick, verður framleidd af Universal kvikmyndaverinu og ljóst þykir orðið að leikstjóri fyrri myndarinnar David Twohy ( The Arrival ) mun ekki vera með í þetta skiptið. Kemur það nokkuð á óvart, því hann var heilinn á bak við Pitch Black, og skrifaði meðal annars handrit myndarinnar. Fenginn hefur verið handritshöfundur X-Men, David Heyter, til þess að skrifa handritið og hefur Universal hafið viðræður við ýmsa leikstjóra til þess að taka að sér verkefnið. Myndin á að vera smellur hjá Universal sumarið 2003.

