Magic Mike leikarinn Joe Manganiello hefur verið ráðinn í hlutverk aðal þorpara næstu Batman myndar, Deathstroke, en Ben Affleck bæði leikur Batman og leikstýrir myndinni.
Áður en ráðning Manganiello var staðfest þá deildi Affleck myndbandi á Twitter af leikaranum í búningi Deathstroke, án þess að segja hver var í búningnum, né heldur sagði hann hvaða rullu þessi persóna myndi leika í Batman myndinni.
— Ben Affleck (@BenAffleck) August 29, 2016
Forstjóri DC Entertainment og hönnunarstjóri, Geoff Johns, staðfesti ráðninguna í fyrsta viðtali sem hann gaf um starf sitt fyrir Warner Bros við ofurhetjumyndir DC Comics.
Hann vildi í samtalinu ekki gefa neitt út á það hvort að Deathstroke myndi mögulega koma fram í gestahlutverki í væntanlegri Justice League mynd, þar sem margar DC ofurhetjur taka höndum saman, en tökur myndarinnar fara nú fram í Lundúnum.
John neitaði einnig að upplýsa um frumsýningardag Batman myndarinnar, en líklega er von á henni í fyrsta lagi árið 2018.
Johns og Affleck skrifa handritið að nýju Batman myndinni saman.
Af frumsýningardögum ofurhetjumynda DC Comics er það helst að frétta að Suicide Squad er í bíó sem stendur. Wonder Woman kemur í bíó 2. júní 2017, og Justice League 17. nóvember. Ónefnd DC mynd kemur 5. október 2018, Shazam kemur 5. apríl 2019, Justice League 2 kemur 14. júní 2019, ónefnd DC mynd kemur 1. nóvember 2019, Cyborg kemur 2. apríl 2020, og Green Lantern Corps kemur 24. júlí 2020.
Enn vantar frumsýningardaga fyrir nýju Batman myndina, Dark Universe, The Flash og Man of Steel 2.