Daniel Radcliffe sannaði það fyrir flestum með The Woman in Black að hann ætti líf utan Hogwartsskóla, og hefur hvergi nærri látið staðar numið. Næst mun hann sjást í indie-myndinni Kill Your Darlings, þar sem hann leikur „beat“-ljóðskáldið Allen Ginsberg. Reyndar hefur Radcliffe sjálfur aðeins reynt fyrir sig í ljóðlistinni, en það er önnur saga
Ljósmyndir af setti myndarinnar duttu á netið fyrir skömmu og sína þær Radcliffe í nýja gervinu – með gleraugu og úfið hár! Samt, greinilega ekki Harry Potter. Á nokkrum myndanna má einnig sjá leikarann unga Dane DeHaan (sem sýndi leikhæfileikana nýlega í aðalhlutverki Chronicle), en hann fer með hlutverk vinar Ginsberg, Lucien Carr. Auk þeirra fara þau Ben Foster, Elizabeth Olsen, Michael C. Hall og David Cross með hlutverk í myndinni. Leikstjóri er John Krokidas, og verður þetta fyrsta mynd hans í fullri lengd.
Þess má svo geta að þetta er ekki í fyrsta skipti sem saga Ginsbergs er kvikmynduð, James Franco lék kappann í kvikmyndinni Howl sem kom út árið 2010. Kíkið á myndirnar hér:
Hvernig haldið þið að Ameríski hreimurinn verði hjá Radcliffe? Man einhver eftir þeim ástralska?