Daniel Radcliffe gerist ljóðskáld

Daniel Radcliffe sannaði það fyrir flestum með The Woman in Black að hann ætti líf utan Hogwartsskóla, og hefur hvergi nærri látið staðar numið. Næst mun hann sjást í indie-myndinni Kill Your Darlings, þar sem hann leikur „beat“-ljóðskáldið Allen Ginsberg. Reyndar hefur Radcliffe sjálfur aðeins reynt fyrir sig í ljóðlistinni, en það er önnur saga

Ljósmyndir af setti myndarinnar duttu á netið fyrir skömmu og sína þær Radcliffe í nýja gervinu – með gleraugu og úfið hár! Samt, greinilega ekki Harry Potter. Á nokkrum myndanna má einnig sjá leikarann unga Dane DeHaan (sem sýndi leikhæfileikana nýlega í aðalhlutverki Chronicle), en hann fer með hlutverk vinar Ginsberg, Lucien Carr. Auk þeirra fara þau Ben Foster, Elizabeth Olsen, Michael C. Hall og David Cross með hlutverk í myndinni. Leikstjóri er John Krokidas, og verður þetta fyrsta mynd hans í fullri lengd.

Þess má svo geta að þetta er ekki í fyrsta skipti sem saga Ginsbergs er kvikmynduð, James Franco lék kappann í kvikmyndinni Howl sem kom út árið 2010. Kíkið á myndirnar hér:

 

Hvernig haldið þið að Ameríski hreimurinn verði hjá Radcliffe? Man einhver eftir þeim ástralska?