Þegar Bryan Cranston, aðalleikari vinsælustu sjónvarpsþátta samtímans, Breaking Bad, lýkur störfum við þættina mun hann leika titilhlutverkið í myndinni Trumbo, sem Jay Roach leikstýrir.
Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um manninn sem sigraðist á svarta listanum svokallaða í Hollywood. Tökur hefjast á næsta ári.
Hlutverkið verður fyrsta kvikmyndahlutverk Cranstons eftir að hann lýkur við tökur á Breaking Bad, en hlutverk hans í þáttunum hefur fært honum þrjú Emmy sjónvarpsverðlaun og hann er tilnefndur til þeirra fjórðu, en Emmy verðlaunin verða einmitt veitt í dag í Bandaríkjunum.
John McNamara skrifaði handritið.
Trumbo var hæst launaðasti handritshöfundur í heimi þegar hann var, árið 1950, sendur í fangelsi fyrir að neita að svara spurningum hinnar alræmdu þingnefndar sem átti að grafast fyrir um tengsl Bandaríkjamanna við kommúnisma, og and ameríska hegðun, en nefndin hét á frummálinu House UnAmerican Activities Committee.
Trumbo var ekki reiðubúinn að þóknast neinum, og ekki heldur eftir að hann var látinn laus úr fangelsi. Hann varð eftir það afkastamesti handritshöfundur Hollywood sem var á svörtum lista, og skrifaði á laun sígildar myndir eins og Roman Holiday og vann til tveggja Óskarsverðlauna undir fölsku nafni.
Lífið var þó ekki auðvelt, þar sem svarti listinn var endanlegur, og eyðilagði ferla, vináttu og líf. Það reyndi á samband Trumbo við eiginkonu og börn, en hann lét ekkert stöðva sig í að brjótast undan listanum.
Að lokum hjállpaði Trumbo að koma í gang herferð gegn Hollywood og stjórnvöldum í Washington D.C. , sem á endanum varð til þess að nafn hans var hreinsað og svarta listanum var endanlega eytt.
Cranston leikur um þessar mundir á sviði í leikritinu All The Way í Massachusetts.
Síðasti þáttur Breaking Bad verður sýndur í Bandaríkjunum 29. september nk.