Þó að áður hafi komið fram að tökur hafi átt að hefjast nú í byrjun sumars á Top Gun framhaldinu, sem gæti endað með að vera með undirtitilinn Maverick, í höfuðið á persónu aðalstjörnunnar, Tom Cruise, Lt. Pete „Maverick“ Mitchell, þá er það ekki 100% rétt, því enn er verið að ráða leikara í myndina.
Nýjustu fréttir herma að Jennifer Connelly sé um það bil að ganga til liðs við leikhópinn.
Ef þetta er rétt, og hún bætist í hópinn, þá mun hún leika einstæða móður sem rekur krá nærri herstöðinni þar sem Pete Mitchell þjálfar herflugmenn. Maður spyr sig hvort að Cruise muni koma við á barnum á leið heim úr vinnu og renna þar hýru auga til bareigandans …
Af öðrum ráðningum, þá má geta þess að Miles Teller mun leika hlutverk sonar Goose, aðstoðarflugmanns Cruise úr fyrri myndinni.
Nú eru allt að verða tilbúið fyrir tökur, og leikstjórinn Joseph Kosinski mun kveikja á upptökuvélunum í september nk.
Connelly munum við hinsvegar næst sjá á hvíta tjaldinu í Alita: Battle Angel, sem frumsýnd verður um jólaleitið.