Það eru komin nokkur ár síðan gamanleikarinn sem gerði Borat og Bruno meðal annars, Sacha Baron Cohen, fór með aðalhlutverkið í sinni síðustu kvikmynd, Grimsby, en svo virðist sem leikarinn hafi notað tímann síðan þá vel, og sé nú með nýtt og spennandi verkefni í bígerð.
Baron Cohen birti nýtt myndband á Twitter í vikunni sem virðist benda til þess að næsta kvikmynd hans muni að einhverju eða öllu leiti snúast um Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Í stiklunni er notað gamal myndbrot af Trump þar sem hann fordæmir aðferðafræði Sacha Baron Cohen í gríninu, og segir honum að „drífa sig aftur í skóla, og læra að vera fyndinn.“
Kannski tók leikarinn forsetann á orðinu, enda segir í myndbandinu að nú fáum við að sjá Cohen í nýju og betra formi, og myndbandið endar með því að tilkynna að „Sacha útskrifist bráðum“ og í lokin kemur spjald þar sem á stendur Trump háskólinn, eða Trump University.
Hvað svo sem hér er á leiðinni, þá hljómar þetta eins og á leiðinni sé pólitísk grínádeila í stíl við fyrri verk leikarans, Ali G, Borat og Brüno.
Trump University hætti starfsemi árið 2010, en skólinn var stofnaður af Trump og viðskiptafélögum hans Michael Sexton og Jonathan Spitalny árið 2004. Boðið var upp á námskeið í fasteignaviðskiptum, eignastýringu, frumkvöðlafræðum og auðsöfnun, að því er segir á Wikipedia.
Allskyns eftirmálar og lögsóknir hafa fylgt þessu viðskiptaævintýri þeirra Trump og félaga, og því er örugglega ýmislegt sem Baron Cohen getur gert sér mat úr í gríni sínu.
A message from your President @realDonaldTrump on Independence Day pic.twitter.com/O2PwZqO0cs
— Sacha Baron Cohen (@SachaBaronCohen) July 4, 2018