Coen bræður leikstýra Gambit

Joel og Ethan Coen ( Fargo ) munu leikstýra kvikmyndinni Gambit. Er hún endurgerð á samnefndri kvikmynd með Michael Caine og Shirley MacLaine í aðalhlutverkum, en þá mynd sáu Coen bræður fyrir stuttu, og hrifust mikið af. Fjallar myndin um atvinnuþjóf sem gengur í lið með afar fallegri konu með það að markmiði að ræna moldríkan mann. Síðan flækist staðan þegar ýmis svik á báða bóga eiga sér stað. Coen bræðurnir hafa víst Hugh Grant í huga fyrir aðalhlutverkið, en fleiri leikarar hafa enn ekki verið nefndir til sögunnar. Þeir munu vinna við handritið nú á næstunni, meðan þeir bíða eftir því að Catherine Zeta-Jones ljúki við Chicago, sem er hennar nýjasta mynd, og George Clooney ljúki við Confessions Of A Dangerous Mind, sem er hans nýjasta mynd. Þau munu nefnilega bæði leika aðalhlutverkin í næstu mynd þeirra bræðra sem nefnist Intolerable Cruelty, en Gambit kæmi líklega þar strax á eftir.