Clerks. (1994)

Ég verð með umfjöllun á sínum stað eins og vanalega. Ég tek fyrir svarthvítu grínmyndina Clerks í þetta skiptið. Þetta er myndin sem kom meðal annars Kevin Smith á kortið, engin ástæða til að vera hissa á því þar sem þetta er stórgóð mynd.

Dante Hicks (Brian O’Halloran) og Randal (Jeff Anderson) eru starfsmenn tveggja verslana, matvörubúð og vídjóleigu sem standa hlið við hlið. Þeir lenda í leiðinlegum kúnnum, eiga fyndnar samræður og afgreiða mikið af sígarettum.

clerksMyndin byggist mikið á fyndnum aðstæðum, samræðum og hlutum. Það gerist mikið af “skrítnum“ hlutum, en persónurnar og myndin sjálf gerir þetta allt svo kasjúal, sem er virkilega stærsta ástæðan fyrir því að hún er svona góð að mínu mati. Myndin gerist að langmestu inni í matvörubúðinni og vídjóleigunni við hliðina. Þangað inn kemur fólk sem pirrar aðallega Randal, sem finnst allt í lagi að láta það koma í ljós. Dante og Randal ná vel saman sem þessir ósamstæðu kubbar sem rífast alltaf en eru um leið sammála um allt saman einhvernveginn. Jeff & Brian leika persónurnar sínar mjög vel, báðir í sinni fyrstu kvikmynd sem leikarar. Þetta er jafnframt fyrsta kvikmynd Kevin Smith sem leikur Silent Bob og Jason Mewes sem leikur besta vin hans Jay, sem leikarar. Myndinni er svo auðvitað leikstýrt af Kevin Smith. Upptaka myndarinnar er skemmtileg, slatti af löngum stöðugum skotum sem virka vel í þessari mynd. Hún er vel klippt og skemmtileg tónlist í henni, Kevin Smith er líka til að mynda kreditaður sem einn af tveimur klippurum myndarinnar.

Það ættu flestir kvikmyndaáhugamenn að þekkja þessa ódýru ’90s indí mynd. Frábær í flesta staði og góð afþreying að minnsta kosti, mæli með henni fyrir þá sem ekki hafa séð.