Castle ekki í vinnu – stormur í vatnsglasi?

castleSjónvarpsþættirnir Castle, sem sýndir eru á RÚV, eiga sér dyggan aðdáendahóp hér á landi, en að undanförnu hafa aðdáendur þáttanna verið áhyggjufullir yfir framtíð aðalhetjunnar sem Nathan Fillion leikur.

Á föstudegi fyrir tveimur mánuðum síðan mætti Fillion ekki til vinnu sem leiddi til tafa á tökum á nýjustu seríu þáttanna auk þess sem á þeim tíma stóðu yfir samningaviðræður á milli leikarans og framleiðanda þáttanna, ABC Studios. Tekist var á um kröfur Fillion um að takmarka vinnu hans við þættina við mánudaga – fimmtudags, en nú standa yfir tökur á sjöttu þáttaröð þáttanna.  Fram að því hafði allt gengið snurðulaust við framleiðslu þáttanna auk þess sem Castle bíómynd var í undirbúningi.

Síðan þetta gerðist hefur allt gengið án vandræða, en í gær tók Fillion aftur upp á því að mæta ekki til vinnu, og meldaði sig veikan.  Fjarvera hans olli umsvifalaust óróleika og vakti umræður um að nú ætlaði leikarinn aftur að taka upp fyrri samningakröfur.

Samkvæmt heimildum Deadline vefjarins á tökustað, þá hafði Fillion góðar og gildar ástæður í þetta skiptið til að sleppa úr vinnu, en hann ku vera slæmur í baki, og þurfti að leita til hnykkjara. Að sögn eru bakvandamál hans viðvarandi og hann þarf að leita sér hjálpar þegar þau koma upp.

Þó að Fillion hafi vantað í gær á tökustað, var hægt að halda tökum áfram án hans, og taka upp senur þar sem hann kom ekki við sögu. Sagt er að búið sé að leysa úr ágreningsefnum leikarans og framleiðandans og Fillion hafi ekki sleppt úr föstudegi frá því í júlí.

Von er á leikaranum aftur í vinnu á mánudag.

Þættirnir eru bandarískir og fjalla um það þegar höfundur sakamálasagna, Castle, er fenginn til að hjálpa lögreglunni þegar morðingi hermir eftir atburðum í bókum hans.

Meðal leikenda auk Fillion eru Stana Katic, Molly C. Quinn og Seamus Dever.