Carnahan að leikstýra Death Wish endurgerð?

Joe Carnahan leikstjóri toppmyndarinnar vestanhafs þessa helgina, The Grey, er nú í viðræðum um að leikstýra endurgerð af kvikmyndinni Death Wish frá 1974. Myndin, sem skaut Charles Bronson endanlega upp á stjörnuhimininn árið 1974, fjallar um arkitekt er heldur í eins manns hefndarför eftir að ráðist er á konu hans og dóttur. Sagan er því einföld hefndarsaga, og því hefur verið kastað fram að aðalhlutverkið myndin passa samstarfsmanni Carnahans úr síðustu tveimur myndum hans, Liam Neeson, fullkomlega. Við verðum bara að bíða og sjá. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við heyrum um möguleikann á endurgerð Death Wish, en Sylvester Stallone hugðist fyrir nokkrum árum leikstýra og fara með aðalhlutverk myndarinnar. Sú útgáfa myndarinnar datt þó uppfyrir.

Það eru Paramount og MGM sem eru að vinna sameiginlega að endurgerðinni, og sjá fyrirtækin myndina fyrir sér sem byrjunina á „nýrri“ hasarmyndaseríu – en fyrsta myndin gat af sér fjögur framhöld, auk fjölda stælinga og mynda í svipuðum dúr frá aðalleikaranum Charles Bronson. Það er þó ekki víst að þetta verði næsta mynd Carnahans, en hann hefur í viðtölum vija gera myndina Killing Pablo næst, sem hann hefur verið með í bakhöndinni í nokkur ár, og mun fjalla um Kólumbíska eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar. Kannski að hann hafi kraft til að koma henni í gang í ljósi velgengni The Gray.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki gerst svo frægur að hafa séð Death Wish fimmuna, og hef því ekki sterkar skoðanir á gildi endurgerðar. Er þetta mynd sem hægt er að bæta, eða er hún fullkomin eins og hún er? Hvað segið þið?