Dominic Cooper, sem margir þekkja úr myndunum Captain America og Mamma Mia, þar sem hann lék kærasta Amanda Seyfried, á nú í viðræðum um að taka að sér aðalhlutverk í tölvuleikjamyndinni Need For Speed, á móti Aaron Paul, sem þegar hefur samþykkt að leika í myndinni.
Leikstjóri myndarinnar er Scott Waugh, sem gerði Act of Valor, og handrit skrifaði George Gatins. Variety kvikmyndaritið segir að myndin verði trú leiknum vinsæla, en handritið er ekki byggt á neinni sérstakri útgáfu af leiknum. Síðasta útgáfa leiksins Need for Speed: Most Wanted kom út 30. október sl.
Sagan fjallar um „neðanjarðar“ kappakstursökumann, Paul, sem á verkstæði sem breytir dýrum bílum til að gera þá hraðskreiðari og betri í kappakstri. Sök er komið á hann, og hann er sendur í fangelsi þegar vinur hans er myrtur meðan á keppni stendur, og hann leitar hefnda þegar hann losnar úr fangelsi.
Cooper myndi leika annað aðalkarlhlutverkið, Dino, fyrrum NASCAR ökumann, sem notar tengsl sín við auðmenn til að endurgera og breyta ofurbílum. Imogen Poots, úr Fright Night, á í viðræðum um að leika bílasölumann sem á í viðskiptum við Paul og Cooper.
Myndin verður frumsýnd þann 7. febrúar, 2014.
Nýlegar myndir Coopers eru: Abraham Lincoln: Vampire Hunter og My Week With Marilyn, og væntanleg er Dead Man Down.