Þar sem að réttindin að ævintýrinu um Öskubusku eru komin úr höfundarrétti, sem þýðir að hver sem er getur nýtt sér söguna, þá ætlar Sony framleiðslufyrirtækið nú að gera sína eigin leiknu útgáfu af þessari sígildu sögu með engri annarri en kúbansk-bandarísku poppstjörnunni Camila Cabello, 22 ára, í titilhlutverkinu.
Kay Cannon, sem síðast leikstýrði gamanmyndinni Blockers, mun leikstýra, en um er að ræða nýja nálgun á söguna sem enginn annar en spjallþáttastjórinn og leikarinn James Corden, er höfundur að.
Ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hver þessi nýja nálgun er, en vitað er að mikið verður um söng og dans í myndinni. Að öllum líkindum kemur vonda stjúpan eitthvað við sögu og stjúpsysturnar, og einnig einhver myndarlegur ævintýraprins.
Ekkert er heldur vitað um hvenær tökur gætu hafist, en fyrst að búið er að ráða í aðalhlutverkið er ekki ólíklegt að myndavélarnar byrji að rúlla síðar á þessu ári.