Spennumyndin Taken 3 trónir á toppi vinsældarlista helgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Alls sáu rúmlega 6.000 manns myndina yfir helgina, en myndin var frumsýnd þann 9. janúar.
Liam Neeson er mættur á nýjan leik í hlutverki leyniþjónustumannsins fyrrverandi Bryans Mills sem eins og allir vita sem sáu fyrri Taken-myndirnar er ekkert lamb að leika sér við þegar hann tekur sig til. Eftir hremmingarnar sem Bryan Mills gekk í gegnum í fyrri myndunum tveimur telur hann sig nú geta varpað öndinni léttar og snúið sér að því sem hann hefur mestan áhuga á; velferð eiginkonu sinnar Lenore og dóttur þeirra, Kim. Sá draumur snýst hins vegar upp í martröð þegar hann kemur eitt kvöldið að Lenore látinni á heimili þeirra. Hún hefur verið myrt og það næsta sem Bryan veit er að hann er sjálfur grunaður um að hafa orðið henni að bana.
Í öðru sæti listans er stórmyndin The Hobbit: The Battle of the Five Armies með Martin Freeman, Ian McKellen og Richard Armitage í aðalhlutverkum. Myndin er sú síðasta um Bilbó Bagga, Þorinn Eikinskjalda og dvergana þrettán. Föruneytið hefur endurheimt heimkynni dverganna frá drekanum Smeygni, en hafa óafvitandi leyst úr læðingi eina mestu ógn Miðgarðs. Í bræði sinni lætur hann rigna eldi yfir varnarlausa íbúa Vatnabæjar. Á sama tíma verður Þorinn heltekinn af fjársjóðnum sínum og fórnar vináttunni við Bilbó til að tryggja öryggi hans.
Í þriðja sæti listans situr teiknimyndin Big Hero 6. Myndin gerist í framtíðarborginni San Fransokyo, sem er samblanda af San Fransisco og Tokyo. Undrabarnið Hiro Hamada hefur smíðað vélmennið Baymax og saman ganga þeir til liðs við ofurhetjur. Myndin er gerð af Chris Williams og Don Hall, en þeir eru báðir vanir teiknimyndaleikstjórar. Sá fyrrnefndi leikstýrði hinni vinsælu teiknimynd Bolt, frá árinu 2008, en Hall hefur áður leikstýrt teiknimyndum á borð við Winnie The Pooh.