Bruce Campbell kveður Ash

Litríki og sjálftitlaði B-mynda leikarinn Bruce Campbell tilkynnti á Facebook síðu sinni að hann væri hættur að leika Ash Williams. Sjónvarpsstöðin Starz tilkynnti fyrir stuttu að framleiðslu á þáttunum „Ash vs. Evil Dead“ væri hætt en þriðja serían lýkur göngu sinni næstkomandi sunnudag.

Campbell segist hafa fylgt Ash í langan tíma en persónan skaut fyrst upp kollinum í hryllingsmyndinni „ The Evil Dead“ eftir leikstjórann Sam Raimi og kom myndin út árið 1981. Tvö framhöld fylgdu í kjölfarið; „Evil Dead 2: Dead By Dawn (1987) og „Army of Darkness“ (1992) og Ash birtist ekki aftur fyrr en árið 2015 þegar „Ash vs. Evil Dead“ kom á skjáinn við góðar undirtektir.

Persónan hefur lengi verið í uppáhaldi hjá fjölmörgum hryllingsmyndaunnendum og Campbell þykir með eindæmum góður í hlutverkinu. „Evil Dead“ þríleikurinn lifir góðu lífi en sér í lagi þótti Ash eftirminnilegur en hann þróaðist í að verða að hálfgerðri goðsagnakenndri fígúru í „Army of Darkness“ þegar hann fór aftur í tímann og barðist við hina viðskotaillu látnu á tímum Arthúrs konungs. Eftir hremmingarnar í „Evil Dead 2“ þurfti Ash að saga af sér hægri handlegginn en hann græjaði búnað sem gerði honum kleift að festa keðjusög við hann og varð að ódauðlegum karakter hjá „hryllingsnördum“ í kjölfarið.

„Ash vs. Evil Dead“ héldu áfram að greina frá raunum Ash þremur áratugum seinna og í fyrsta þættinum vekur hann óvart viðskotaillu djöflana frá vænum lúr þegar hann, í ölvuðu ástandi, les upphátt kafla úr alræmdri bók sem vekur hina dauðu. Síðan þá hefur hann verið i stöðugri baráttu við þá látnu og sér til halds og trausts hafa verið þau Pablo (Ray Santiago) og Kelly (Dana DeLorenzo). Síunga skvísan Lucy Lawless (úr „Xena: Warrior Princess“) hefur einnig verið órjúfanlegur hluti af þáttunum ýmist sem hjálparhella eða vargur.

Þættirnir hafa vakið mikla lukku og því kemur þessi ákvörðun Starz á óvart. Aðdáendur eru þegar farnir að binda vonir við að Netflix komi til bjargar en tíminn einn leiðir í ljós hvort Ash eigi eftir að skjóta upp kollinum í framtíðinni. Úr því sem komið er væri sennilega mest spennandi að sameina Sam Raimi og Campbell og fá eina lokamynd frá félögunum en Raimi hefur ekki leikstýrt mynd síðan „Oz the Great and Powerful“ kom út árið 2013.

Lokaorðið fær Campbell. „Er Ash dauður? Alls ekki. Ash er alveg eins mikið hugtak og eiginleg persóna. Eins lengi og hið illa þrífst verður einhver – maður eða kona – að mæta því. Það skiptir engu,“ segir hann í færslu sinni.