Þrívíddardróttinssaga á leiðinni

Það lítur út fyrir að kvikmyndafyrirtækin séu búin að fatta það að þrívíddin á nýjustu myndunum sé ekki alveg að hitta nógu mikið í mark til að fólk tími að borga aukapeninginn fyrir miðann sinn. Stúdíóin virðast hafa fundið upp leið til að halda þrívíddaræðinu lifandi (eða það er a.m.k. vonin), og það er með því að gefa út gamlar, klassískar myndir aftur út í bíó. Slíkt hljómar aldrei illa, en gallinn er sá að þær eru breyttar í þrívíddarmyndir. Slíkt hljómar sjaldan vel nema James Cameron sé sjálfur að stýra þessu.

Það er stutt í að bíógestir geti farið að njóta Star Wars: Episode I (*andvarp*) og Titanic á hvíta tjaldinu aftur, og nú lítur út fyrir að Hringadróttinssagan góða gæti líka verið á leiðinni aftur í bíó.

Enn eru þetta bara vangaveltur og er því ekkert almennilega staðfest, en Elijah Wood gaf þetta í skyn í viðtali við vefsíðuna Den of Geek. „Ég held að þetta yrði mjög töff,“ segir Elijah, „mér finnst ekkert að því að breyta myndum í þrívídd eftir framleiðslu svo lengi sem mikill tími er gefinn í ferlið. Þetta getur litið ótrúlega vel út með rétta fjármagninu en sömuleiðis hræðilega ef ekki gefst nógu mikill tími eða metnaður.“