Fimm áhrifaríkar en jafnframt afar ólíkar norrænar kvikmyndir keppa um hin eftirsóttu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs á þessi ári, samkvæmt frétt frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum.
Íslenski leikstjórinn Árni Ólafur Ásgeirsson, handritshöfundurinn Ottó Geir Borg og framleiðendurnir Þórir Sigurjónsson, Skúli Fr. Malmquist, Grímar Jónsson og Gísli Örn Garðarsson eru tilnefndir til verðlaunanna fyrir kvikmyndina BRIM og keppa við eina mynd frá hverju hinna norrænu ríkjanna: Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Verðlaunin að andvirði 350.000 danskra króna eru veitt kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og býr yfir miklum listrænum gæðum. Kvikmyndin á einnig að sýna listræna nýsköpun og jafnframt þróa kvikmyndalistina með því að sameina hinar ýmsu hliðar hennar í sannfærandi og heilsteyptu verki.
UM BRIM
Brim er byggð á leikriti eftir leikhópinn Vesturport sem frumsýnt var árið 2003. Eftir að hafa notið mikilla vinsælda innanlands lagði hópurinn land undir fót og fór til Wiesbaden, Tampere og Moskvu þar sem verkið hlaut New Drama verðlaunin.
Árni Ólafur Ásgeirsson og meðhöfundur hans Ottó Geir Borg ásamt Vesturport teyminu eiga heiðurinn af því að koma leikritinu á hvíta tjaldið, en hópurinn myndaði af mikilli nákvæmni daglegt líf á togara. „Erfið veðurskilyrði á 33 daga upptökutíma auka enn á raunsæið og afburðaleikur, hljóðmynd, tónlist og myndataka voru verðlaunuð á Edduverðlaununum 2011 þar sem myndin hlaut 6 verðlaun, þ.á.m. fyrir bestu mynd og bestu leikkonu í aðalhlutverki (Nína Dögg Filippusdóttir).
Brim var opnunarmynd Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík 2010 og tók þátt í kvikmyndahátíðinni í Brussel í júní 2011.“
RÖKSTUÐNINGUR DÓMNEFNDAR
Íslenska dómnefndin, sem í sitja Sif Gunnarsdóttir, Kristín Jóhannsdóttir og Hilmar Oddson segja í rökstuðningi sínum: „Hver persóna Brims er dregin skýrum dráttum, ekki síst báturinn sjálfur og hafið sem stýra atburðarásinni. Árni Ólafur Ásgeirsson leikstjóri heldur vel utan um söguna og persónur hennar sem eru leiksoppar öfgafullra aðstæðna. Andrúmsloftið er þrúgandi og innilokunarkenndin vex í takt við ógnina sem steðjar að. Myndatakan er áhrifamikil og Brim fer með áhorfandann út á hrollblautt þilfarið og inn í þrúgandi innilokunarkennd káetunnar af svo næmum skilningi og raunsæi að hún skilur eftir saltbragð í munni áhorfenda. Að lokinni ferð skilar hún okkur, næstum því, heilum heim.“
SIGURVEGARINN TILKYNNTUR 2. NÓVEMBER
Dómnefnd sem skipuð er einum fulltrúa frá hverju Norðurlandanna tilkynnir í október hver hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2011. Þau verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn 2. nóvember, en þá verða einnig afhent Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs,Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
Markmiðið með verðlaununum er meðal annars að styrkja norræna menningu og byggja upp heimamarkað fyrir menningu, bókmenntir, tungumál, tónlist og kvikmyndir.
Kvikmyndirnar fimm sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið
2011 eru:
SANDHEDEN OM MÆND (SANNLEIKURINN UM KARLA)- Danmörk
Leikstjóri: Nikolaj Arcel
Handritshöfundar: Nikolaj Arcel, Rasmus Heisterberg
Framleiðendur: Meta Louise Foldager, Louise Vesth
HYVÄ POIKA (GÓÐI SONURINN)
Leikstjóri: Zaida Bergroth
Handritshöfundar: Jan Forsström, Zaida Bergroth
Framleiðendur: Elli Toivoniemi, Mark Lwoff, Misha Jaari
BRIM – Ísland
Leikstjóri: Árni Ólafur Ásgeirsson
Handritshöfundar: Ottó Geir Borg, Árni Ólafur Ásgeirsson, Vesturport
Framleiðendur: Þór Sigurjónsson, Skúli Fr. Malmquist, Grímar Jónsson, Gísli Örn Garðarsson
ÓSLÓ, 31. ÁGÚST (OSLO, AUGUST 31ST) – Noregur
Leikstjóri: Joachim Trier
Handritshöfundar: Joachim Trier, Eskil Vogt
Framleiðandi: Yngve Sæther, Sigve Endresen, Hans Jørgen Osnes
SVINALÄNGORNA (BEYOND) – Svíþjóð
Leikstjóri: Pernilla August
Handritshöfundar: Pernilla August, Lolita Ray
Framleiðendur: Helena Danielsson, Ralf Karlsson
Í ár verða Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs veitt í áttunda sinn. Í fyrra hlaut Thomas Vinterberg verðlaunin fyrir kvikmyndina Submarino og áður hafa verðlaunin verið veitt vegna virtra kvikmynda eins og Antichrist (2009), Kunsten at græde i kor (2007), Zozo (20069, Drabet (2005) og Manden uden fortid (2002).
Nú þegar dómnefnd í hverju norrænu ríki fyrir sig hefur tilnefnt eina kvikmynd til að taka þátt í keppninni um verðlaunin, kemur norræn dómnefnd saman og greiðir atkvæði um hver muni hljóta verðlaunin í ár.
Í norrænu dómnefndinni sitja formenn dómnefnda landanna, en þeir eru í ár Per Juul Carlsen (Danmörku), Outi Heiskanen (Finnlandi), Sif Gunnarsdottir (Íslandi), Silje Riise Næss (Noregi) og Fredrik Sahlin (Svíþjóð).
Kvikmyndahaust í norrænu höfuðborgunum
„En það er ekki einungis verið að verðlauna bestu norrænu kvikmynd ársins, – kvikmynd er einskis virði án áhorfenda. Þess vegna förum við af stað með mikið átak í haust til að tryggja það, að þegar kvikmyndirnar, sem tilnefndar hafa verið, verða sýndar í kvikmyndahúsum höfuðborga Norðurlandanna, verði það hæfileikafólk sem stóð að gerð þeirra til staðar. Fjöldi norrænna kvikmynda hefur náð góðum árangri jafnt innan Norðurlanda og á alþjóðamarkaði. Nokkrar af þeim kvikmyndum sem tilnefndar eru í ár hafa þegar tekið þátt í nokkrum af mikilvægustu kvikmyndahátíðum heims og einnig náð mikilli sölu. Kvikmyndirnar fimm bera vott um mikla breidd og gæðaframleiðslu ungra og áhugaverðra leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda á Norðurlöndum, sem lofa góðu,“ segir Hanne Palmquist, framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda og sjónvarpssjóðsins, sem stýrir verðlaununum fyrir Norðurlandaráð, í fréttatilkynningunni.
Græna ljósið sýnir allar fimm tilnefndu myndirnar í Bíó Paradís dagana 7. – 11. september. Búast má við leikstjórum einhverra myndanna til Íslands í tilefni sýninganna og verður það nánar tilkynnt innan skamms.