Fyrsta stillan úr nýjustu James Bond-myndinni, Skyfall, hefur litið dagsins ljós og gerir grein fyrir hvor kynið sé líklegur markhópur þeirrar myndar eins og er. Við sjáum Daniel Craig við sundlaug, einungis á skýlunni og í góðu formi eins og ávallt.
Sérkennilegt val á stillu fyrir svona stóra mynd, en þetta selur ákveðnum áhorfendahópi myndina. Að þessu sinni er það óskarsveðlaunahafinn Sam Mendes sem leikstýrir Bond og eru stórgóðir leikarar á borð við Ralph Fiennes og Javier Bardem sem koma til leiks, en Ralph Fiennes er sagður taka við hlutverki M í nýju myndinni sem hún Judi Dench hefur lengi verið kennd við.
Að þessu sinni eru Bond-stúlkurnar tvær, en þær eru Berenice Marlohe og Naomie Harris– einnig mun Q yngjast í fyrsta sinn í seríunni þar sem Ben Whishaw tekur við hlutverkinu. Einnig er skipt út tónskáldinu David Arnold fyrir Thomas Newman, en hann David Arnold hefur verið tónskáld seríunnar síðan 1997.
Myndin er væntanleg hérlendis 26. október- er spenna byrjuð að myndast fyrir endurkomu Bonds? Eða skildi síðasta myndin eftir sig of vont eftirbragð?