Bobby Breiðholt plakat á Big Trouble

Í kvöld kl. 20 verður þriðja sýning kvikmyndaklúbbsins Svartra sunnudaga haldin í Bíó Paradís, en sýnd verður myndin Big Trouble in Little China, með Kurt Russell í aðalhlutverkinu. Sýnd er ein mynd á hverjum sunnudegi, en sýndar eru myndir sem „taka sig síður hátíðlega“, eins og Sigurjón Kjartansson, einn aðstandenda klúbbsins, sagði í samtali við Kvikmyndir.is á dögunum.

Það er yfirlýst stefna klúbbsins að láta sérhanna plakat fyrir hverja mynd sem sýnd er. Fyrsta plakatið, fyrir myndina Dawn of the Dead, hannaði Ómar Hauksson, en plakatið fyrir Big Trouble in Little China hannaði Bobby Breiðholt, en plakatið má sjá hér að neðan ásamt upprunalegu plakati myndarinnar þar fyrir neðan:

Söguþráður myndarinnar er þessi: Þegar vörubílstjórinn Jack Burton samþykkti að gefa vini sínum Wang Chi far í bílnum til að ná í kærustuna á flugvöllinn, þá bjóst hann aldrei við að flækjast í yfirnáttúrulega baráttu á milli góðs og ills. Kærasta Wangs er með smaragðsgræn augu, sem er nákvæmlega það sem hinum ódauðlega seiðkarli Lo Pan og þremur ósýnilegum hjálparkokkum hans vantar. Lo Pan verður að kvænast stúlku með græn augu svo hann geti fengið líkama sinn aftur. Núna verður Jack að bjarga kærustu Wangs frá Lo Pan og gengi hans, og endurheimta vörubílinn, sem var stolið. En hvernig getur hann sigrað óvin sem er ekki með neinn líkama?

Sýningin hefst kl. 20 í Bíó Paradís.