Blankur Cage selur eignir

Hús í Las Vegas sem áður var í eigu stórleikarans Nicholas Cage, seldist í gær á 5 milljónir Bandaríkjadala, eða 645 milljónir íslenskra króna. Húsið hafði aðeins verið einn dag á sölu, að sögn fasteignasala í Las Vegas.

Cage hefur átt í fjárhagsvandræðum en hann skuldar milljónir dollara í ógreidda skatta. Hefur Óskarsverðlaunaleikarinn þurft að selja þónokkrar af eignum sínum til að rétta fjárhaginn af.

Kenneth Lowman, eigandi fasteignasölurnnar Homes of Las Vegas, sagði í samtali við AP fréttastofuna, að ásett verð villunnar, sem er rúmlega 1.300 fermetrar að stærð, og var í eigu banka sem hafði tekið hana af Cage upp í skuld, hafi verið 4,95 milljónir dala.

Ekki kemur fram hver festi sér eignina.

Cage fór í mál við fyrrum viðskiptastjóra sinn í október sl. og krafðist 20 milljóna Bandaríkjadala af honum, og sagði að ráðgjöf hans hafi leitt til þessa afleita fjárhagsástands.