Eftir að hafa eytt 20 árum ævi sinnar fyrir framan kvikmyndatökuvélina ætlar leikkonan ástralska Cate Blanchett að taka sér stöðu hinum megin vélarinnar, en hún hyggst leikstýra kvikmyndagerð á skáldsögu Herman Koch, The Dinner. Handritshöfundur The Messenger, Oren Moverman, skrifar handritið, en um er að ræða geðtrylli sem skoðar hversu langt sumir foreldrar eru tilbúnir að ganga til að vernda börn sín.
Óvíst er hvort að Blanchett hyggst sjálf leika í myndinni.
Síðasta mynd Blanchett, sem er einmitt í sýningum hér á landi um þessar mundir, Woody Allen myndin Blue Jasmine, hefur hlotið góðar viðtökur og Blanchett orðuð við Óskarinn fyrir frammistöðu sína.
Blanchett hefur lengi stefnt að því að leikstýra kvikmyndum, en hún hefur verið aðstoðarleikstjóri við Sydney Theatre Company sl. fimm ár ásamt eiginmanni sínum, leikskáldinu Andrew Upton. Hún leikstýrði leikriti David Harrower, Blackbird, og endurminningum Joan Didion, The Year of Magical Thinking.
Leikkonan fékk Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í The Aviator og hefur verið tilnefnd til verðlaunanna fyrir leik sinn í Elizabeth, Notes On A Scandal og I’m Not There.
The Dinner kom fyrst út í Amsterdam árið 2009 og fór inn á metsölulista bandaríska dagblaðsins New York Times.