Blade Runner-framhaldið staðfest

Við bíðum eflaust öll óendanlega spennt eftir nýjustu mynd Sir Ridley Scott, Prometheus, sem kemur loksins í næsta mánuði. Hún markar þó ekki einu fortíðarför Ridleys á núverandi ferli hans, því alveg síðan í ágúst í fyrra hefur maðurinn staðfest að hann muni leikstýra nýrri Blade Runner-kvikmynd. Hvort að hún yrði forsaga eða framhald hefur verið óvitað síðan að myndin var tilkynnt, en nú hefur formleg fréttatilkynning frá framleiðendum staðfest að þetta verði svo sannarlega framhald; en ekki eins og við mætti búast.

Enn er lítið sem ekkert vitað um söguna, hins vegar var það einnig afhjúpað í fréttatilkynningunni að myndin mun gerast nokkrum árum eftir endalok Blade Runner og aðalpersónan að þessu sinni verður kvenkyns. Scott hefur einnig útilokað þáttöku Harrisons Ford, sem er kannski rétta leiðin til að byrja.

Verkefnið fann líka handritshöfund í vikunni og ólíkt fyrri fregnum verður það einn af tveimur upprunalegu handritshöfundum Blade Runner, Hampton Fancher. Sem betur fer munu þeir Fancher og Scott hefja nú alvöru vinnslu á handritinu, en enn er langt í land fyrir myndina. Það er ekkert hugsanlegt leikaralið í augnablikinu og tökur hefjast ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2013, sem gæfi myndinni útgáfu árið eftir. Ofan á það þá er ekki einu sinni víst að Blade Runner-framhaldið verði hans næsta verkefni eftir The Counselor, þar sem Angelina Jolie-dramað Gertrude Bell og Prometheus-framhald berjast um sætið.

Persónulega get ég ekki verið annað en spenntur yfir þessari nýfundnu týndu sci-fi ást Ridleys og sérstaklega þar sem þeir virðast ekki ætla að traðka á förnum vegi fyrstu Blade Runner-myndarinnar. Eða ég vona það að minnsta kosti.