Bílabíó í Borgarnesi – Nýtt líf á dagskrá

Í undirbúningi er uppsetning á bílabíói í Borgarnesi. Verður það mánudaginn 30. mars klukkan 20:00 á plani við reiðhöllina Faxaborg, rétt ofan við Borgarnes. Á dagskrá er kvikmyndin Nýtt Líf, fyrsta kvikmynd þríleiksins um Danna og Þór eftir Þráin Bertelsson. Í þessari mynd reyna þeir fyrir sér í fiskiðnaðinum.

Bíóið verður opið öllum á meðan pláss leyfir á bílaplaninu. „Fólk er beðið um að virða náungann og halda sig í sínum bílum á meðan á viðburði stendur og fara eftir þeim reglum og viðmiðum sem almennt eru settar af hálfu Heilbrigðisráðuneytis og Almannavarna,“ segir í tilkynningu fyrir viðburðinn.

„Við ákváðum að fara í þetta verk­efni til að skapa eitt­hvað spenn­andi og skemmti­legt fyr­ir fólk á svæðinu til að stefna að, þar sem öll umræða snýst meira og minna um COVID-19 veiruna, aðstæður og af­leiðing­ar,“ seg­ir Sigt­hora Od­ins, sem stend­ur að bíla­bíói sem haldið verður á mánu­daginn.

„Heim­il­is­líf hef­ur rask­ast hjá flest­um, íþrótt­astarf hef­ur lagst niður svo það er lítið um að vera fyr­ir yngri kyn­slóðina nema skóli eða fjar­nám. Þetta er okk­ar til­raun til að hlúa að ná­ung­an­um og skapa viðburð sem áhuga­sam­ir geta hlakkað til að upp­lifa.“