Bernie Mac sem Bosley

Gamanleikarinn/uppistandarinn Bernie Mac mun koma í staðinn fyrir Bill Murray sem lék Bosley, í næstu Charlie’s Angels mynd. Samningar náðust ekki við Murray, og þar að auki áttu hann og Lucy Liu í miklum illdeilum á meðan tökum myndarinnar stóð. Því var farin sú leið að finna nýjan mann í hlutverkið, og þar kemur Mac inn. Bernie Mac er með afar vinsælan sjónvarpsþátt í bandarísku sjónvarpi, The Bernie Mac Show, en hann mun leika í myndinni á meðan þátturinn er í hvíld milli árstíða. Í myndinni leikur Mac svipaðan karakter og Murray lék í myndinni, og eru handritshöfundarnir búnir að skrifa inn í handritið að þeir séu skyldir á einhvern hátt sem enginn veit enn hver er. Cameron Diaz , Lucy Liu og Drew Barrymore munu allar snúa aftur í framhaldið. Tökur á myndinni hefjast í haust og áætlað er að frumsýna myndina sumarið 2003.