Rúmlega 1000 blaðsíðna þrekvirki Stephen Kings um heimsendi og baráttu milli góðs og ills eftir endalokin er á leiðinni á hvíta tjaldið, en upphaflegi leikstjóri myndarinnar, David Yates, hefur verið skipt út fyrir Ben Affleck. Þetta eru ansi sérkennilegar fregnir þar sem David Yates er nýbúinn að klára stóra seríu kvikmynda fyrir Warner Bros. og handritshöfundur þeirra seríu, Steve Kloves, er að skrifa handritið að The Stand. Ben Affleck hefur fengið mikið lof fyrir tvær dramamyndir sínar Gone Baby Gone og The Town, og er nú að leikstýra stærstu kvikmynd sinni, Argo, en The Stand er mun stærra verkefni sem gæti orðið að þríleik- þ.e.a.s. að bókinni verður skipt í þrjár myndir.
The Stand er eitt virtasta og stærsta verk metsöluhöfundsins Stephen Kings og hefur áður verið gerð minisería byggð á bókinni og fékk misgóðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda, og nýlega hófst myndasögusyrpa byggð á bókinni. Lengi hefur verið talað um að koma bókinni í bíóhús, en bókin er erfiður efniviður til að kvikmynda vegna fjölda persóna og lengdar sögunnar. Það verður spennandi að sjá hvað koma skal og ég mæli með því að fólk kynni sér bókina því hún er fjári góður lestur.