Ben Affleck verður Batman

benaffleckFramleiðslufyrirtækið Warner Bros hefur staðfest að leikarinn Ben Affleck mun taka að sér hlutverk Batman í framhaldsmynd Man of Steel.

Tilkynnt var um framhaldsmyndina á Comic-Con ráðstefnunni fyrr á þessu ári, miklar vangaveltur fóru í gang í kjölfarið eftir að Zack Snyder sýndi merki Superman og Batman á ráðstefnunni.

Affleck er hvergi ókunnugur ofurhetjum. Hann lék m.a. titilhlutverkið í kvikmyndinni Daredevil árið 2003. Affleck lék einnig Superman-leikarann George Reeves í kvikmyndinni Hollywoodland, sem var gerð árið 2006.

Batman og Superman eiga langa sögu í myndasöguheiminum og komu fyrst fram sem tvíeyki í myndasögunni Worlds Finest árið 1954. Þar voru þeir bestu félagar og unnu saman gegn glæpum. Árið 1986 leystist vinskapur þeirra upp þegar Frank Miller gaf út myndasöguna The Dark Knight, í þeirri sögu var bæði mikill pólítískur og heimspekilegur ágreiningur á milli þessara ofurhetja.

Man of Steel hefur gert það gott á heimsvísu og þénað 600 milljónir dala síðan hún var frumsýnd í júní. Framhaldsmyndin verður frumsýnd árið 2015 og verður þetta í fyrsta skipti sem Batman og Superman leiða saman hesta sína á hvíta tjaldinu.