Beckinsale snýr aftur til vampíruheima

Kvikmyndaleikkonan Kate Beckinsale hefur ákveðið að snúa aftur til baka í heim vampíra og varúlfa, en hún hefur skrifað undir samning um að leika Selenu í fjórðu Underworld kvikmyndinni, en Kate lék ekki í þriðju myndinni.
Ekki er búið að ráða leikstjóra fyrir verkefnið að því er fram kemur í frétt frá Reuters, auk þess sem óráðið er í hlutverk dóttur Selenu. Áætlað er að tökur hefjist í mars nk. í Vancouver í Kanada. Framleiðandi er Lakeshore/Screen Gems.

Fyrsta Underworld kvikmyndin var frumsýnd árið 2003, en myndirnar þrjár sem framleiddar hafa verið hafa reynst vinsælar og skilað drjúgum skildingi í kassann, eða alls um 300 milljónum Bandaríkjadala um heim allan, sem er harla gott þar sem kostnaður við hverja mynd er aðeins um 35 milljónir dala.