Bay staðfestir geimskjaldbökurnar

Síðustu dagar hafa ekki verið góðir við leikstjórann og sprengjufíkilinn Michael Bay, eftir að hann tilkynnti í síðustu viku að skjaldbökurnar í hinni væntanlegu Ninja Turtles yrðu geimverur. Skiljanlega fóru raddir aðdáenda að hrópa á Bay og varð gagnrýnin svo mikil og hörð að nokkrum dögum síðar neyddist hann til að svara múgnum, en það hjálpaði ekki til:
„Aðdáendur verða að anda og slaka á. Þeir hafa ekki lesið handritið. Liðið okkar er að vinna nálægt með einum af höfundum skjaldbakanna til að búa til flóknari baksögu. Slappið af, allt sem gerði ykkur að aðdáendum til að byrja með verður í myndinni. Við erum bara að búa til ríkari heim.“

Svarið gerði lítið til að slökkva reiði aðdáenda og bötnuðu hlutirnir ekki við þá staðreynd að stytting Bays á nafni skjaldbakanna var meira en bara til að spara tíma; þar sem staðfest hefur verið að myndin mun formlega heita aðeins Ninja Turtles. Aftur þurfti Bay að skjóta út pirraðari útskýringu þar sem hann vildi meina að markaðsdeild Paramount hefði „einfaldað“ titilinn og reyndi síðan að bjóða þá huggandi staðreynd ef má kalla að tveir „gáfaðir“ menn sæju um handritsskrifin.

Í miðjum klíðum náði fréttasíðan Comingsoon.net tali af leikstjóra myndarinnar, Jonathan Liebesman, og sem aðdáandi vildi hann meina að myndin væri í öruggum höndum: „Ég hef heyrt um allt vesenið og ég er ánægður að það eru svona ástríðufullir aðdáendur, en ég hef bókstaflega verið læstur inni í herbergi með Kevin Eastman (einn af höfundum myndasögunnar). Ég held að aðdáendur muni elska það sem við höfum verið að vinna að. Ég er aðdáandi og ég elska það sem við erum með. Þetta er mikið af efni sem Kevin hefur haft í huganum lengi, en hefur bara aldrei notað áður. Allt sem við víkkum út í sögunni tengist beint í goðafræði seríunnar og aðdáendur munu missa sig yfir því.“

Sama hvorum megin við línuna þú stendur, þá er það óneitanlegt að báðar hliðar hafa eitthvað til síns máls. Þetta kemur eiginlega allt niður því hvort maður vill hlusta á ummæli Eastmans um að hugmyndin sé „æðisleg“, eða ummæli Robbie Rist, sem talaði fyrir eina skjaldbökuna í fyrstu þremur kvikmyndunum, en hann kallaði Ninja Turtles „saurgun á seríunni“ og „nauðgun æskuminninga“.

Ninja Turtles er væntanleg 25. desember á næsta ári.