Warner Bros. kvikmyndaverið hefur opinberlega gefið leikstjóranum Wolfgang Petersen ( The Perfect Storm ) grænt ljós á kvikmyndina Batman VS. Superman. Handritið, sem skrifað er af Andrew Kevin Walker ( Seven ), fjallar um það hvernig Superman og Batman, áður félagar, snúast gegn hvor öðrum vegna mismunandi hugmyndafræði. Superman getur ekki sætt sig við það hvernig heimurinn er að breytast, og hvernig gildi hans sem áður voru svo göfug og hrein, ganga ekki upp í fallvöltum heimi. Batman hins vegar er kominn á hálan ís með það hvernig hann tekur á glæpamönnum. Hann er farinn að telja sjálfan sig hafin yfir lög og reglu, og ekki líður á löngu áður en þeir tveir lenda upp á kant hvor við annan. Búið er að senda handritið til leikara, og búist er við því að ráðið verði í stærstu hlutverk á næstu 2-4 vikum. Myndin á að vera sumarmynd árið 2004, og kemur hinum myndunum sem Warner Bros. er að gera, þ.e. Batman Year One ( Darren Aronofsky ) eða Superman ( McG ), ekkert við.

