Batman orðrómur dagsins! Robin!

Það er vægast sagt nóg af orðrómum sem maður heyrir á hverjum degi þegar kemur að næstu Batman myndinni. Nýlega var leikarinn Joseph Gordon-Levitt ráðinn í The Dark Knight Rises, en aðdáendur víða um heim reyna nú að komast að því hvaða hlutverk hann hreppti. Meðal þeirra nafna sem hafa verið kastað fram er Robin, hjálparhella Batman.

Leikstjóri myndanna, Christopher Nolan, hefur sjálfur sagt að Robin muni ekki birtast í myndunum svo lengi sem hann sé við stjórn þeirra, sem og leikarinn Christian Bale hefur sagst hætta sem Leðurblökumaðurinn yrði Robin kynntur til sögunnar. En sögusagnir herma að svo gæti verið.

Samkvæmt WILX News fréttaþættinum frá Michigan voru menn á vegum framleiðslu The Dark Knight Rises, þar á meðal Nolan sjálfur, staddir í Fitzgerald Park í Grand Ledge. Samkvæmt mönnum innan bæjarskrifstofu Grand Ledge átti Nolan að hafa lagt fram beiðni um að vatnsveita í Fitzgerald Park yrði notuð sem bækistöðvar Robin í myndinni. Taka skal fram að þetta er ekki staðfest, og síðan BatmanOnFilm þvertekur fyrir orðróminn.

Þó svo að margir vilji halda Robin úr myndunum á Nolan það til að sannfæra fólk um ágæti leikara sem og persónna. Og færi svo að skúrkurinn Bane, sem Tom Hardy mun leika, brjóti bakið á Leðurblökumanninum líkt og hann gerði í myndasögunum er ekki ólíklegt að hetjan þyrfti á hjálp að halda.

– Bjarki Dagur