Batman orðrómur dagsins! Marion Cotillard

Ef eitthvað er að marka franska fréttablaðið Le Figaro er leikkonan Marion Cotillard í þann mund að hreppa hlutverk í The Dark Knight Rises. Blaðið er talið mjög traustur fjölmiðill en ekki er visst hvaða heimildir Le Figaro hefur fyrir þessum fréttum.

Ef satt reynist mun Cotillard bætast í hóp Inception-leikara sem munu birtast í þriðju og síðustu Batman-mynd Christopher Nolan. Eins og flestir vita var nýlega staðfest að Tom Hardy myndi leika hinn grimma Bane, Michael Caine snýr að sjálfsögðu aftur sem Alfred, sem og Joseph Gordon-Levitt var nýlega orðaður við hlutverk í myndinni.

Eins og með Gordon-Levitt er ekki visst hvaða hlutverk Óskarsverðlaunaleikkonan Cotillard tæki að sér, en nafn hennar hefur lengi verið hvíslað í sama andadrætti og Talia Al Ghul, dóttur Ra’s Al Ghul sem gerði Leðurblökumanninum lífið leitt í Batman Begins.

– Bjarki Dagur